Aldrei fleiri fallið á lyfjaprófi

Lyfjaeftirlitsnefnd Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ, tók alls 119 lyfjapróf á síðasta ári í 17 íþróttagreinum, þar af eru sextán greinanna innan ÍSÍ. Af þeim voru 70 tekin í keppni en 49 utan keppni.

Alls reyndust fjögur sýnanna vera jákvæð, þ.e. innihalda efni sem eru á bannlista í íþróttum. Þetta er mesti fjöldi jákvæðra sýna sem greinst hefur á einu ári hér á landi, en þrjú sýnanna voru tekin fyrir aðila sem ekki eru innan vébanda ÍSÍ, það er í hreysti. Eina jákvæða sýnið sem fannst hjá íþróttamanni innan ÍSÍ var í knattspyrnu. Öllum málum var vísað áfram til Lyfjaráðs ÍSÍ sem flutti málið fyrir dómstólum ÍSÍ þar sem viðkomandi íþróttamenn voru dæmdir til refsingar samkvæmt lögum ÍSÍ og Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC.

Lyfjaprófum hér á landi hefur fjölgað meira en tvöfalt frá árinu 1996 þegar þau voru 50. Síðan hefur þeim fjölgað jafnt og þétt og hefur aðeins einu sinni verið tekin fleiri lyfjapróf hér landi en á síðasta ári, það var árið 2000 og skýrist m.a. af því að mjög strangt eftirlit var með öllum þátttakendum Íslands á Ólympíuleikunum sem fram fóru í Sydney það ár.

Kostnaður á lyfjaprófi um 30 þús. kr.

Kostnaður við hvert lyfjapróf hleypur á bilinu 30-35 þúsund krónur og því má áætla að lyfjapróf síðasta árs hafi kostað um 4 milljónir króna. Af því leggur ríkissjóður fram um eina milljón króna til prófanna en að öðru leyti stendur ÍSÍ straum af kostnaðinum.

Flest lyfjaprófin voru tekin í knattspyrnu, 28. Þar á eftir kom handknattleikur þar sem 18 lyfjapróf voru tekin, 16 sinnum voru körfuknattleiksmenn teknir í lyfjapróf, þrettán sinnum voru frjálsíþróttamenn kallaðir til og tíu sinnum sundmenn, svo dæmi sé tekið af þeim íþróttagreinum sem í flest lyfjaprófin fóru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert