Atli hvetur Árna Gaut til að skipta um félag

Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, hvetur Árna Gaut Arason landsliðsmarkvörð til að skipta um félag í sumar. Árni Gautur hefur verið settur á varamannabekkinn hjá Rosenborg og í samtali við norska blaðið Adresseavisen í gær sagðist Atli ekki geta lofað Árna því að hann héldi stöðu sinni sem aðalmarkvörður íslenska landsliðsins ef hann fengi ekkert að spila hjá sínu félagsliði.

Atli sagði við blaðið að Árni hefði verið einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins undanfarin ár. "Hann hefur sýnt mikinn stöðugleika, bæði með Rosenborg og landsliðinu. En sem leikmaður í fremstu röð þarf hann að spila vikulega. Ef hann gerir það ekki er sæti hans í landsliðinu í hættu þegar til lengri tíma er litið. Árni er eftir sem áður okkar besti markvörður í dag," sagði Atli.

Hann staðfesti þetta við Morgunblaðið í gær. "Það hefur verið einkennilega staðið að málum Árna hjá Rosenborg. Hann þurfti að fara í aðgerðir á nára og olnboga eftir síðasta tímabil en var ekki sendur í þær fyrr en talsvert var liðið á veturinn og litlu munaði að hann gæti ekki leikið með landsliðinu gegn Skotum fyrir vikið. Árni hefur verið afar tryggur sínu félagsliði, fyrstu árin hjá Rosenborg beið hann síns tækifæris með mikilli þolinmæði, og nýtti það síðan frábærlega. Árni á sín bestu ár framundan en það er honum afar mikilvægt að hann spili sem mest. Hann getur farið frá Rosenborg í júlí og ég vona að hann fái þá gott tækifæri til að komast að hjá öðru sterku félagi. Hvað landsliðið varðar er mikilvægt fyrir hann að spila reglulega til að halda sæti sínu þar," sagði Atli.

Árni Gautur sagði við Adresseavisen að hann skildi afstöðu Atla mjög vel. "Ég er ekki í góðri stöðu í augnablikinu og það er ekki skemmtilegt að sitja á varamannabekknum. Nú er ég háður því að Espen Johnsen geri mistök í markinu hjá Rosenborg, svo ég fái tækifæri á ný. En þó að ég vilji komast í liðið á ný vil ég ekki að Espen geri mistök því það sem mestu máli skiptir er að liðið okkar spili vel og vinni sína leiki. Við Espen erum svipaðir að styrkleika og nú spilar hann en ekki ég. Samt finnst mér það ekki sanngjarnt því ég missti ekki sætið í liðinu vegna þess að ég spilaði illa," sagði Árni Gautur.

Hann sagði jafnframt við blaðið að eftir því sem hann sæti lengur á varamannabekknum minnkuðu líkurnar á að hann gerði nýjan samning við Rosenborg. Núgildandi samningur rennur út eftir þetta tímabil og frá og með 1. júlí má Árni hefja viðræður við önnur félög.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert