Ásgeir fékk ráð frá Atla

Ásgeir Sigurvinsson, landsliðsþjálfari, setti sig í samband við Atla Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara, eftir leikinn við Færeyinga á laugardaginn og leitaði álits hjá honum varðandi landslið Litháa en Atli var á meðal áhorfenda þegar Litháar báru sigurorð af Skotum í Kaunas, 1:0, í apríl síðastliðnum.

,,Atli gaf mér mjög góðar upplýsingar um Litháana sem vonandi koma að góðu gagni. Það er ekki það sama að sjá leiki í sjónvarpi og vera á vellinum. Þú þarft að vera með yfirsýn yfir allan völlinn til að sjá færslur, leikskipulag og annað slíkt og Atli gat því gefið mér góð ráð," sagði Ásgeir í samtali við Morgunblaðið.

Litháar áttu frí um helgina þegar aðrar þjóðir í riðlinum áttust við en þeir léku síðast vináttuleik á móti Rúmenum í Kaunas í lok apríl en honum lauk með 1:0 sigri Rúmena. Litháar hófu undankeppnina með 2:0 ósigri á móti Þjóðverjum á heimavelli, næst lögðu þeir Færeyinga að velli, 2:0 í Kaunas, næst töpuðu þeir fyrir Íslendingum á Laugardalsvellinum, 3:0, en í tveimur síðustu leikjum í undankeppninni hafa Litháar heldur betur bitið frá sér.

Þeim tókst að ná jafntefli gegn Þjóðverjum í Bremen, 1:1, og leggja síðan Skota að velli, 1:0, með marki úr vítaspyrnu.

Meiðsli og leikbönn setja nokkurt strik í reikninginn hjá Algimantas Liubinkas landsliðsþjálfara Litháa. Þrír leikmenn taka út leikbönn og fjórir leikmenn sem að öllu jöfnu hefðu verið í hópnum eru frá vegna meiðsla. Hins vegar koma tveir öflugir leikmenn sem báðir hafa verið frá í síðustu leikjum Litháa sökum meiðsla inn í hópinn á nýjan leik . Þetta er Aurelijus Skarbalius varnarmaður frá Bröndby en hann er talinn besti leikmaður Litháa, og miðjumaðurinn Raimondas Zutautas sem verið hefur á mála hjá Maccabi Haifa í Ísrael.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert