Rúnar Kristinsson leikur í kvöld sinn 100. landsleik

Rúnar Kristinsson slær í kvöld enn einn ganginn landsleikjametið þegar Íslendingar mæta Litháum í Kaunas í undankeppni EM í knattspyrnu. Að þessu sinn nær Rúnar þeim glæsilega áfanga að spila 100. landsleik sinn fyrir Ísland en Rúnar hefur verið í landsliðinu allar götur síðan 1987 þegar hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Rússum í Sympferapol þar sem Rússar fóru með sigur af hólmi, 2:0. Rúnar hefur tekið þá ákvörðun að enda feril sinn með landsliðinu í haust eftir leikina við Þjóðverja og ef að líkum lætur verður kveðjuleikur hans á Laugardalsvellinum laugardaginn 11. október.

Ég er búinn að taka þá ákvörðun að klára þessa keppni sem stendur fram á haust og svo reikna ég með því að hætta í landsliðinu. Þetta er búinn að vera langur tími en ansi skemmtilegur og ég sé ekki eftir einni einustu mínútu. Mig er einfaldlega farið að langa til að fá meiri tíma með fjölskyldu minni og gefa henni tækifæri til að njóta sín líka. Maður er að fórna ansi miklu og til að mynda er ég að eyða tæpum þremur vikum af fimm sem ég hef í sumarfrí en ég vil taka það skýrt fram að ég sé ekki eftir þessum tíma. Einhvern tímann verður þetta að taka enda og mér finnst rétt að gefa öðrum mönnum tækifæri og hleypa nýjum að," segir Rúnar sem verður 34 ára gamall í haust og er á samningi hjá Lokeren í Belgíu til ársins 2005.

"Ég hef svo sem aldrei spáð í hvað leikirnir séu orðnir margir hjá mér og ég stefndi ekkert sérstaklega á að ná 100 landsleikjum. Ég byrjaði hins vegar mjög ungur að spila með landsliðinu og hef verið heppinn með meiðsli í gegnum tíðina (sjö, níu þrettán, segir Rúnar og bankar í borðið). Ég hef líka verið heppinn með að ég hef alltaf verið valinn af öllum þeim landsliðsþjálfurum sem hafa verið síðan ég kom fyrst inn í liðið," segir Rúnar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Rúnar lék fimm síðustu mínúturnar í fyrsta leik sínum og hann segist varla hafa komið við boltann á þeim mínútum enda voru Rússar með boltann meira og minna allan leikinn. Á þessum tíma var Þjóðverjinn Sigfried Held landsliðsþjálfari og með liðinu voru að spila leikmenn eins og Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Pétursson, Arnór Guðjohnsen, Sævar Jónsson og Atli Eðvaldsson svo einhverjir séu nefndir. ,,Þetta voru menn sem maður leit mjög upp til og það var sérlega gaman að fá að læra af þessum köppum," segir Rúnar.

Rúnar hefur á þessum árum gengið í gegnum súrt og sætt með landsliðinu.

,,Maður hefur lifað tímana tvenna. Við höfum alla vega í tvígang verið nálægt því að komast í úrslitakeppni á stórmóti en svo hafa komið tímar þar sem við höfum ekki átt neina möguleika. Þegar maður lítur til baka þá sér maður að breiddin var ekki mjög mikil í íslenskum fótbolta þegar ég var að byrja með landsliðinu. Helmingurinn af leikmönnunum spilaði á Íslandi en í dag er það aðeins einn úr hópnum sem spilar heima, Birkir Kristinsson. Ef þrír eða fjórir leikmenn úr þessum hópi myndu meiðast þá kæmu jafnmargir atvinnumenn í stað þeirra þannig að þetta hefur styrkst hjá okkur og menn eru í dag almennt í betri æfingu og eru yfirleitt í toppstandi allt árið um kring. Hvað sem menn segja heima á Íslandi þá hafa menn náð að bæta sig með því að spila erlendis hvort sem það er í Svíþjóð, Noregi eða á öðrum stöðum." Eru einhverjir leikir sem standa upp úr í minningunni hjá þér þegar þú lítur yfir leikina 99 með landsliðinu? ,,Jafnteflisleikurinn á móti Sovétmönnum í Moskvu líður mér seint úr minni.

Þar náðum við að jafna metin undir lokin fyrir framan 70-80.000 manns. Ég fékk að spila í 10-15 mínútur en það var nóg. Stemningin í klefanum fyrir og eftir leik var mögnuð og mér er sérstaklega minnisstætt brosið á Sigfried Held eftir leikinn því yfirleitt stökk honum ekki bros á vör. Leikirnir á móti Frökkum, jafnteflisleikurinn heima og 3:2 ósigurinn í París eru mér einnig ofarlega í huga. Það voru frábærir leikir af okkar hálfu og auðvitað man maður betur eftir góðu leikjunum en þeim slæmu sem eru mjög margir." Rúnar metur leikinn í kvöld sem úrslitaleik fyrir íslenska landsliðið.

,,Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur. Við eigum enn möguleika en það hefur reynst okkur erfitt að sækja stig á útivelli. Það er áhyggjuefni en Ásgeir og Logi hafa reynt að innprenta í okkur að við verðum að leggjast allir á eitt í svona verkefni og þjappa okkur saman. Litháar eru þjóð sem við eigum alveg að geta unnið, hvort sem það er heima eða úti en að sjálfsögðu þurfum við að ná toppleik til að leggja þá að velli hér í Kaunas. Það er auðvelt að misstíga sig í svona leikjum og því er mjög mikilvægt að menn verði með 100% einbeitingu allt frá fyrstu mínútu," segir Rúnar sem ekki gat tekið þátt í 3:0 sigrinum á Laugardalsvelli síðastliðin haust vegna meiðsla.

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Kaunas

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert