Logi Ólafsson ánægður með hugarfarið í Kaunas

Hermann Hreiðarsson stekkur yfir Vadim Perenko.
Hermann Hreiðarsson stekkur yfir Vadim Perenko. AP

Það má vel segja að Logi Ólafsson, annar af þjálfurum íslenska landsliðsins, hafi fengið uppreisn æru eftir sigurinn sæta á Litháum í gær. Logi var þjálfari landsliðsins þegar þjóðirnar öttu kappi 1996 og 1997. Hann sá sína menn tapa í Litháen, 2:0, og gera 0:0 jafntefli á Laugardalsvellinum og eftir þann leik var honum sagt upp og Guðjón Þórðarson ráðinn í hans stað. Logi brosti því breitt þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gærkvöld.

„Það gekk allt sem við lögðum við strákana fyrir leikinn. Við vissum það að ef okkur tækist að setja eitt mark þá yrðu þeir pirraðir og óþolinóðir og það gekk eftir. Það eina sem var spurning um var að nýta færin betur heldur en á móti Færeyjum og það gerðu strákarnir svo sannarlega. Ég taldi sjö til átta marktækifæri og við hefðum í raun getað unnið stærri sigur," sagði Logi við Morgunblaðið.

Voruð þið sáttir við leik liðsins í fyrri hálfleik? ,,Við sögðum við strákana að leikur þeirra hefði batnað eftir því sem á hálfleikinn leið og við lögðum mikla áherslu á að menn bættu við sig sem þeir og gerðu. Við ræddum um það fyrir leikinn að við vildum gera leikinn eftirminnilegan fyrir tvo frábæra einstaklinga, Rúnar og Guðna, og áréttuðum við strákana að ekki yrði gaman fyrir þá að skilja eftir í minningunni leik sem við köstum hendinni til." Logi sagði að sigurinn hefði verið liðsheildarinnar og hann vildi ekki draga út einhverja leikmenn sem stóðu sig betur en aðrir. ,,Ég var afskaplega ánægður með hugarfarið í liðinu. Menn lögðu sig meira en 100% fram og ég get vel tekið undir það sem menn hafa rætt eftir leikinn að þetta sé einn besti leikur landsliðsins á útivelli frá upphafi. Við Ásgeir vorum alveg vissir um og sögðum drengjunum að ef íslenskt lið ætlar að geta eitthvað í fótbolta þá verðum við að spila með hjartanu. Um leið og við gleymum því þá erum við ekki nógu góðir. Liðsheildin hér í kvöld var hreint frábær og ég er mjög ánægður með framlag manna í leiknum. Við erum komnir í annað sætið og ég held að strákarnir eigi skilið að vera í þeirri stöðu. Þeir hafa legið undir mikilli gagnrýni en þeir hafa sýnt hvað í þá er spunnið í þessum tveimur leikjum. Við skynjuðum það fyrir leikinn á móti Færeyingum að menn voru tilbúnir í þessi verkefni og það voru allir ákveðnir í að snúa gengi liðsins við. Við höfum passað okkur á því að vera jákvæðir í öllu sem við höfum gert og við báðum menn að vera jákvæðir á móti. Við erum ekki í þessu til að hafa hlutina leiðinlega heldur hafa gaman af þessu. Við viljum hafa ímynd landsliðsins jákvæða og nú verðum við bara að byggja ofan á þetta," sagði Logi.

Hefur mikla þýðingu fyrir íslenska knattspyrnu

,,Ég á varla orð til að lýsa yfir frammistöðu liðsins. Þessi sigur var gífurlega þýðingarmikill fyrir íslenska knattspyrnu og ekki síður fyrir strákana í liðinu sem hafa þurft að þola mikla gagnrýni á ákveðnum tímabilum. Ég hreinlega bara man ekki eftir að hafa séð aðra eins frammistöðu hjá íslensku liði á útivelli. Liðsheildin var frábær og bæði fyrir leik og í leiknum sjálfum var stemningin hreint mögnuð. Það hefur oft komið fyrir hjá íslenska landsliðinu að gera í sig eftir sigurleiki. Núna voru væntingarnar kannski ekkert miklar en strákarnir stóðu sig eins og hetjur og ég er æðislega stoltur af þeim og ekki síður af þjálfurunum," sagði Eggert Magnússon, formaður KSÍ, sem var í sjöunda himni.

Megum ekki ofmetnast

"Þetta var frábær sigur liðsheildarinnar og við þurftum svo sannarlega á stigunum að halda," sagði Árni Gautur Arason markvörður sem átti eins og margir í íslenska liðinu frábæran leik í Kaunas. "Baráttan var rosaleg allt frá fyrstu mínútu og menn voru staðráðnir í að vinna. Markið kom á góðum tíma í síðari hálfleik og við vissum að ef við myndum skora þá kæmi rót á leik Litháanna. Það var svo sem nóg að gera hjá mér á köflum en þetta gekk vel og ég er sérlega ánægður með að hafa haldið hreinu. Vörnin fyrir framan mig var frábær og nú er bara að halda áfram á sömu braut. Við megum ekki ofmetnast."

Kominn tími á mark

Hermann Hreiðarsson skoraði sitt þriðja mark fyrir íslenska landsliðið þegar hann batt endahnútinn á frábæran leik íslenska liðsins og skallaði í litháíska markið frábæra fyrirgjöf Eiðs Smára Guðjohnsens á lokamínútunni.

"Það var kominn tími á mig að skora. Sendingin hjá Eiði var frábær og það var ekki annað að gera en að skora. Sigurinn var frábær og ég held að við höfum lagt grunninn að honum í fyrri hálfleik. Við vörðumst vel og Litháarnir voru pirraðir þegar síðari hálfleikurinn hófst. Við skoruðum á góðum tíma og það mark virtist brjóta þá niður. Það er gaman að vera í þessu þegar vel gengur og nú er ljóst að við erum búnir að blanda okkur í toppbaráttuna. Ég held að liðið hafi loksins sýnt hversu það er megnugt og þegar allir eru að berjast og liðið að spila sem ein liðsheild þá getum við gert góða hluti," sagði Hermann.

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Kaunas

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert