Ralf neitar því að hafa létt Michael lífið

Schumacherbræðurnir á verðlaunapallinum í Montreal.
Schumacherbræðurnir á verðlaunapallinum í Montreal.

Ralf Schumacher var gagnrýndur í lok kappakstursins í Montreal fyrir kjarkleysi í keppni við bróður sinn Michael. Var trjóna Williamsbíls hans nánast límd við púströr Ferrarifáks heimsmeistarans tvo þriðju hluta kappakstursins án þess að Ralf gerði neina tilraun til framúraksturs þótt heimsmeistarinn ætti við bremsuvanda að glíma.

Eigin liðsmönnum til undrunar gerði Ralf sig aldrei líklegan til að reyna að knýja sig fram úr Michael en eftir rúmlega 300 km akstur munaði 0,7 sekúndum á þeim í endamarki. Félagi Ralfs, Juan Pablo Montoya, var fastur í þriðja sæti.

Þulur og fréttaskýrandi ITV-sjónvarpsstöðvarinnar, fyrrverandi ökuþórinn Martin Brundle, segist þeirrar skoðunar að stjórnendur Williams hefðu átt að biðja Ralf að víkja svo félagi hans Montoya, sem er mun djarfari, gæti lagt til atlögu við heimsmeistarann.

Og tæknistjóri Williams, Patrick Head, játaði að það hefði hvarflað að sér um stund að gera það. "En ég hætti við það því það hefðu verið ein af þessum fyrirmælum sem Ralf hefði annaðhvort ekki heyrt eða séð.

Aðeins Ralf sjálfur veit hvort hann hefði átt að sýna meiri sókndirfsku gagnvart Michael en hann segir aðra bíla hafa tafið för sína á úthringjum eftir bæði þjónustustoppin og það hafi gert út um keppnina.

Juan Pablo vann upp 12 sekúndna mun og náði þeim báðum undir lokin og það benti til að bílarnir okkar hefðu hraðann til að taka fram úr Michael. Ég var nokkuð undrandi á að Ralf skyldi ekki leiðast að aka í kjölsogi Michaels í 40 hringi," sagði Head.

Og meira að segja liðsstjórinn Frank Williams gaf til kynna að Montoya hefði reynt framúrakstur. "Ég verð að gæta orða minna, en hugsanlega og líklega hefði Juan látið til skarar skríða. Ég er þó ekki viss um að hann hefði getað komist nógu nálægt til að gera atlögu," sagði Williams. Ralf Schumacher neitar því hins vegar alfarið að hafa auðveldað bróður sínum Michael sigur með því að gera enga tilraun til að taka fram úr þótt heimsmeistarinn ætti við bremsuvanda að stríða. "Ég komst aldrei nógu nálægt til þess að reyna, þess vegna gerði ég enga atlögu. Kannski halda sumir að ég hafi tekið það rólega en gefist ekki færi þá reyni ég ekki framúrakstur," sagði hann.

Ralf hefur margsinnis áður sætt gagnrýni fyrir að sýna linkind þegar bróðir hans hefur átt í hlut.

Með sigrinum komst Michael Schumacher í fyrsta sinn í efsta sætið í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Fróðir telja að hann geti þakkað sigurinn að hluta því að Montoya snarsneri Williamsbíl sínum á fyrsta hring en fyrir vikið komst Schumacher fram úr honum. Þau mistök voru afdrifarík en þykja líka undirstrika að ungu ökuþórarnir séu ekki alveg klárir í slaginn við Schumacher um ökuþórstitilinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert