Grönholm ætlar sér stóra hluti í heimaralli

Norðmaðurinn Petter Solberg hjá Subaru kveðst reiðubúinn í slaginn í …
Norðmaðurinn Petter Solberg hjá Subaru kveðst reiðubúinn í slaginn í finnska rallinu.

Heimsmeistarinn í ralli, Finninn Marcus Grönholm, vonast til að vinna finnska rallið fjórða árið í röð og ná forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþór af Peugeot-félaga sínum Richard Burns.

Finnska rallið hefst á morgun, föstudag, en það er níunda mótið í HM í ralli í ár. Er Grönholm í þriðja sæti í keppni ökuþóra, fimm stigum á eftir Burns. Varð Grönholm í öðru sæti í síðasta ralli, í Þýskalandi.

Rallið fer fram á malarvegum til sveita í Finnlandi og er bæði hraðasta rall ársins og lengst, en alls eru sérleiðirnar um 400 km. Telur Grönholm, sem unnið hefur þrjú röll í ár, heimarall sitt besta tækifærið til að draga Burns uppi. Undanfarin níu ár hafa einungis finnskir ökuþórar unnið finnska rallið.

Burns hefur þrisvar orðið í öðru sæti í finnska rallinu undanfarin fjögur ár. Rallið er hans 100. mót í HM í ralli og markmið hans er að halda forystunni í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra þegar það er afstaðið.

„Finnska rallið er eitt af uppáhalds mótum mínum. Ég hefði ekki á móti því að klára það jafnvel og í fyrra - og hvers vegna ekki ögn betur?," segir hann um slaginn við félaga sinn.

Milli Burns og Grönholm í stigakeppninni er Spánverjinn Carlos Sainz sem ekur fyrir Citroen. Í keppni bílsmiða er Peugeot fremst í flokki með 95 stig en Citroen í öðru sæti með 88.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert