Höttur lék ekki seinni leikinn

Ekkert varð af leik ÍBV og Hattar í 1. deild karla í handknattleik sem fram átti að fara í Vestmannaeyjum á sunnudag. Ástæðan var sú að leikmenn Hattar, sem léku við ÍBV, í bikarkeppninni á sama stað á laugardag, voru farnir þegar deildarleikurinn átti að hefjast eftir hádegi á sunnudag. Töldu þeir sig ekki getað verið lengur í Eyjum þar sem allt leit út fyrir að þeir yrðu í leikslok á sunnudag veðurtepptir. Svo virðist sem Hattarmenn hafi tapað leiknum, þar sem þeir mættu ekki leiks. Reyndar reyndi aldrei á það því dómarar leiksins fóru með sömu ferð og Hattarmenn til lands, það er með síðustu ferð Herjólfs, þennan tiltekna dag, sem farin var á á sunnudag um hádegið. Hattarmenn óska eftir að fá annað tækifæri til þess að spila leikinn. Málið hafi ekki verið tekið fyrir í Mótanefnd HSÍ í gær og því vildi Róbert Gíslason, starfsmaður HSÍ ekkert tjá sig um það að svo stöddu.

Báðum leikjum seinkað

Hattarmenn fóru frá Egilsstöðum snemma á föstudagsmorgni og voru mættir á Bakkaflugvöll í Landeyjum um klukkan 14. Þá var ófært til Eyja en helmingur liðsins komst þangað klukkan 18. Hinn helmingurinn varð eftir og komst ekki yfir fyrr en á laugardagsmorgninum, þannig að báðum leikjunum var seinkað um sólarhring.

"Á laugardeginum var ljóst að mjög slæmt veðurútlit var fyrir sunnudaginn og þá báðu fimm okkar leikmanna um að fá að fara, þar sem þeir gátu ekki tekið þá áhættu að verða veðurtepptir vegna náms og vinnu. Átta leikmenn urðu eftir til að spila leikinn á sunnudeginum, sem átti að hefjast klukkan eitt," sagði Einar Ben Þorsteinsson, formaður handknattleiksdeildar Hattar í samtali við Morgunblaðið í gær.

"Um morguninn kom síðan í ljós að ferð Herjólfs til Þorlákshafnar yrði flýtt til hádegis vegna veðurútlits. Við tókum þá ákvörðun að fara með skipinu, eftir að hafa ítrekað óskað eftir því við HSÍ að leiknum yrði frestað, en fengið synjun. Þegar í land var komið áttum við eftir 600 kílómetra ferðalag í slæmu veðri.

Allt sem við biðjum um er að okkur verði sýndur skilningur en ég á von á því að við verðum sektaðir og leikurinn dæmdur okkur tapaður. Það finnst okkur hins vegar ekki sanngjarnt, við erum ekki þannig þenkjandi að við viljum sleppa við leiki vegna kostnaðar og munum mæta á ný til Eyja ef okkur verður heimilað það," sagði Einar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert