Bíll Super Aguri fellur á prófi

Super Aguri á ferð í brasilíska kappakstrinum 2006.
Super Aguri á ferð í brasilíska kappakstrinum 2006. ap

Super Aguri-liðið hefur neyðst til að slá frumsýningu 2007-bílsins á frest þar sem hann féll á árekstraprófi. Þurfa tæknimenn liðsins og hönnuðir því aftur að setjast að teikniborðinu og betrumbæta höggstyrk bílsins.

SA07-bíllinn er smíðaður í þróunarmiðstöð Honda í Tochigi í Japan og til stóð að frumaka honum snemma í febrúar. Þær vonir urðu að engu þegar skrokkurinn stóðst ekki tilskilið höggpróf á vegum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) á dögunum.

Hafði liðið ráðgert að frumaka honum við bílprófanir í Barein í byrjun febrúar. Útlit er því fyrir að ekki verði af því fyrr en síðla í febrúar, eða um þremur vikum fyrir fyrsta mót ársins, og þá væntanlega í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert