Knattspyrnukonur, skylmingakonur og sundkona fengu fyrstu styrkina

Fyrsta úthlutun úr nýstofnuðum Afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ fór fram fyrir aðalfund Glitnis á Nordica hóteli í dag. Úthlutað var styrkjum að upphæð samtals 2,5 milljónir króna sem runnu til þriggja aðila. Kvennalandslið Íslands í knattspyrnu hlaut eina milljón króna. Skylmingasamband Íslands hlaut eina milljón króna vegna Guðrúnar Jóhannsdóttur og Þorbjargar Ágústsdóttur. Þá hlaut sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir 500 þúsund krónur. Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík og formaður sjóðstjórnar, kynnti styrkhafa en Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, afhenti styrkina ásamt Völu Flosadóttur, sem á sæti í stjórn sjóðsins.

Kvennalandsliðið í knattspyrnu stefnir á úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009 en keppt er um 11 laus sæti. Undirbúningur felur í sér fjölgun æfingaleikja, ítarlegar mælingar á líkamlegu atgervi og séræfingar fyrir leikmenn. Kvennaliðið var í 21. sæti af 140 á heimslista árið 2006 næst á eftir Tékkum og Spánverjum.

Skylmingakonurnar Guðrún Jóhannsdóttir og Þorbjörg Ágústsdóttir úr Skylmingafélagi Reykjavíkur stefna á keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Guðrún býr í Kanada og æfir þar með kanadíska landsliðinu. Í fyrra vann hún Quebec-meistaramótið og varð önnur á Kanadameistaramótinu. Þorbjörg er Íslands- og Norðurlandameistari kvenna í skylmingum með höggsverði 2006. Hún náði 26. sæti á heimsbikarmóti á Kúbu og 31. sæti í London. Hún æfir reglulega með franska landsliðinu.

Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona úr KR, var útnefnd sundkona ársins 2006 en hún setti fjögur Íslandsmet á árinu og var eina íslenska konan sem náði lágmarkstíma fyrir EM í 50 m sundi í Búdapest. Þar tryggði hún sér keppnisrétt á HM í Ástralíu í mars. Fyrir árið 2006 er Ragnheiður í 28. sæti í 50 m skriðsundi í Evrópu og í 44. sæti á heimslista. Í 100 m skriðsundi er hún í 32. sæti í Evrópu og því í 49. sæti á heimslista. Í 100 m fjórsundi er hún í 30. sæti í Evrópu og í 50. sæti á heimslista skv. World Ranking News.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert