Ecclestone segir stigafyrirkomulagið ekki stuðla að spennandi keppni

Ecclestone er óhress með núverandi stigagjöf í formúlunni.
Ecclestone er óhress með núverandi stigagjöf í formúlunni. reuters

Bernie Ecclestone, alráður formúlunnar, segir núverandi stigagjöf formúlu-1 ekki virka og geri íþróttina minna spennandi. Hann segir stigamuninn fyrir fyrstu tvö sætin ekki nógu mikinn til að ökuþórar taki áhættu í keppninni um sigur í móti.

Sigurvegari í móti hlýtur 10 stig en annar ökuþór í mark átta stig og sá þriðji hlýtur sex. Fyrirkomulaginu var breytt fyrir árið 2003 til að koma í veg fyrir að ökuþór gæti orðið heimsmeistari á miðri vertíð eins og gerðist árið 2002.

Áður fékk sigurvegari fjórum stigum meira en sá er varð annar og Ecclestone segir núverandi mun of lítinn. "Ákvörðunin um að veita öðrum ökuþór á mark átta stig hefur ekki virkað," segir Ecclestone í viðtali við breska blaðið Mail on Sunday.

"Ökuþór í öðru sæti hefur ekki nógu mikla hvatningu til að sækja til sigurs," segir Ecclestone. Og bætir við að það sé ekki áhættunnar virði að reyna að sækja tvö "aumleg" stig í viðbót ef sóknin fæli í sér þá hættu að hann lenti utan brautar.

Ecclestone sagðist stöðugt berast kvartanir um að ekki væri lengur mikið um framúrakstur í formúlou-1. "Í mínum huga á keppnin bara að snúast um sigur. Sá ökuþór sem vinnur flest mót á árinu ætti að vera heimsmeistari. Svo einfalt er það, annað sæti í mótum ætti því aðeins að gilda ef tveir ökuþórar ynnu jafn mörg mót," segir alráðurinn.

Ecclestone segist munu knýja á um breytingar á stigagjöfinni fyrir næsta ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert