Þrautaganga Boston Celtics loks á enda?

Boston Celtics
Boston Celtics ADAM HUNGER
Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Þegar Reggie Miller fékk upphringingu og var spurður hvort hann gæti hugsað sér að taka fram körfuboltaskóna að nýju og ganga í raðir Boston Celtics varð hann hvumsa, en hugsaði með sér af lítillæti að Michael Jordan hefði snúið aftur á sínum tíma og hvers vegna ætti hann ekki að geta það líka. Miller er 41 árs. Í 18 ár lék hann með Indiana Pacers í NBA-deildinni. Nú er hann að velta fyrir sér að byrja aftur og þessa dagana æfir hann tvisvar á dag til að athuga hvort hann myndi standast álagið.

En hvers vegna ætti leikmaður, sem eitt sinn var stjarna í NBA, að mæta aftur til leiks og það til að ganga í raðir liðs, sem á síðasta leiktímabili var með næstlélegasta árangurinn í deildinni og hefur undanfarin ár frekar orðið sér til athlægis en að vera líklegt til afreka? Ástæðan getur aðeins verið ein: Hann langar til að ná í titilinn, sem honum auðnaðist ekki að vinna á sínum tíma.

Sögufrægt lið í langri lægð

Boston Celtics er reyndar sögufrægt körfuboltalið og ekkert annað lið í NBA hefur unnið jafnmarga titla, en gæfa þess hefur verið fallvölt og undanfarið hefur lánleysið elt það á röndum. Og það breyttist ekki þegar kom að nýliðavalinu í vor þar sem búið er svo um hnútana að lélegustu liðin fái að velja fyrst. Boston endaði númer sex í röðinni og þegar kom að liðinu voru aðrir búnir að hreppa þá leikmenn, sem líklegast var talið að yrðu ofurstjörnur framtíðarinnar.

Í sumar tóku forráðamenn liðsins hins vegar til sinna ráða. Framkvæmdastjóri liðsins er Danny Ainge, sem lék með Boston á þeim dýrðardögum þegar Larry Bird, Kevin McHale og Robert Parish dunduðu sér við að valta yfir hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Honum fannst greinilega tími til kominn að setja saman almennilegt lið. Fyrsta skrefið var að fá Ray Allen, leikstjórnanda hjá Seattle Supersonics, til þess að skipta um búning. Næst nældi Ainge í Kevin Garnett frá Minnesota Timberwolves, sem hæglega getur skorað tuttugu stig að meðaltali á kvöldi og tekið 12 fráköst. Síðan er spurning hvort Miller bætist í hópinn.

Fyrir er í liðinu einn stjörnuleikmaður, Paul Pierce, sem undanfarin ár hefur þurft að bera liðið uppi. Nú fær hann rækilegan stuðning.

Við þessi kaup hefur áhugi vaknað á Boston Celtics á nýjan leik. Lítill áhugi hefur verið á leikjum liðsins á landsvísu undanfarin ár, en í vetur er ráðgert að sýna 19 leiki þess í beinni útsendingu um öll Bandaríkin, sýnu fleiri en áður.

Boston Celtics urðu fyrst Bandaríkjameistarar árið 1957. Næstu 29 árin var liðið nánast með titilinn í áskrift og varð meistari 16 sinnum. Örlagavaldur í sögu liðsins var Red Auerbach, sem tók við þjálfun þess árið 1950. Það tók hann sjö ár að byggja upp lið, en þegar hann náði valréttinum á Bill Russell frá St. Louis Hawks var björninn unninn. Hann vann níu titla, þar af átta í röð 1959-1966, og hefur aðeins einn þjálfari, Phil Jackson, náð viðlíka árangri. Á þrettán árum vann liðið 11 titla. Þegar Auerbach kom til Boston var hokkí aðalíþróttagreinin. Hann fékk ekki einu sinni fastan samning og var sagt að yrði liðið ekki sigursælt ætti körfubolti enga framtíð fyrir sér í borginni.

Áhrif Auerbachs

Auerbach var umdeildur og margir þoldu hann ekki. Sagt er að Wilt Chamberlain, sem sennilega er einn besti körfuboltamaður sögunnar, hafi haft slíka óbeit á Auerbach að hann gat ekki nefnt hann á nafn og sagði "maðurinn sem ég kann ekki við" þegar hann þurfti að tala um hann.

Auerbach vildi hafa hlutina einfalda. Celtics-liðið var með sjö kerfi og allir andstæðingarnir þekktu þau, en áttu samt ekkert svar við þeim.

Auerbach var mikill skapmaður og þekktur fyrir að draga fram vindil og tendra þegar ljóst var að sigur væri í höfn og það var ekki síst þess vegna sem hann fór í taugarnar á mörgum.

Hann var fyrsti þjálfarinn til að taka svartan leikmann inn í deildina, Charles Cooper, árið 1950. 1963 fékk hann Willie Naulls til sín og Boston Celtics varð fyrsta atvinnuliðið til að vera eingöngu með blökkumenn inni á vellinum og síðan til að vera aðeins með blökkumenn í byrjunarliði. Aftur braut Auerbach blað er hann gerði Bill Russell að arftaka sínum á þjálfarastóli. Russell varð þar með fyrsti blökkumaðurinn til að þjálfa lið í einni af helstu íþróttagreinum landsins.

Auerbach, sem lést í fyrra 89 ára að aldri, fannst hann ekki njóta sannmælis í Boston og taldi að körfuboltanum hefði ekki verið gert nógu hátt undir höfði þrátt fyrir velgengnina. Hann er hins vegar eini maðurinn, sem reist hefur verið stytta af í borginni í lifanda lífi. Auerbach hélt áfram að vera viðriðinn liðið eftir að hann hætti að þjálfa og oft nýttist auga hans fyrir hæfileikaríkum leikmönnum vel.

Á áttunda áratugnum vann Boston tvo titla og á níunda áratugnum komst liðið aftur í fremstu röð. Bandarískur körfubolti hafði verið í lægð, en gekk í endurnýjun lífdaga þegar Larry Bird kom til Boston og Magic Johnson til Los Angeles Lakers. Með Larry Bird varð liðið meistari í þrígang.

Ógæfan dynur yfir

Vorið 1986 varð Boston síðast meistari og hafði liðið að margra hyggju aldrei leikið betur en þá. Vegna leikmannaskipta höfðu Boston Celtics fengið réttinn til að velja næstfyrstir í nýliðavalinu og tóku leikmann að nafni Len Bias. Bias þótti gríðarlegt efni. Mike Krzyzewski, þjálfari Duke-háskóla, sagði einhverju sinni að í sínum huga væru tveir leikmenn ofar öðrum, Michael Jordan og Len Bias. Bird hafði verið valinn mikilvægasti leikmaður NBA þrjú ár í röð og McHale og Parish voru enn í fullu fjöri. Með þessari viðbót hefði liðið verið til alls líklegt. En gleðin var skammvinn. Tveimur dögum eftir að Bias var valinn lét hann lífið eftir að hafa neytt kókaíns.

Næsta ár fengu Boston Celtics Reggie Lewis til sín í nýliðavalinu. Lewis hafði leikið hjá Northeastern-háskóla í Boston, en frammistaða hans þar gaf ekki til kynna hvað koma skyldi. Lewis varð frábær leikmaður og það átti að koma í hans hlut að bera kyndilinn þegar Bird, McHale og Parish voru farnir. Enn dundi ógæfan hins vegar yfir. Í apríl 1993 hneig Lewis niður í miðjum leik í úrslitakeppninni, en jafnaði sig og kom aftur inn á völlinn. Um sumarið hneig hann aftur niður og var allur.

Eftir þetta áfall hafa Boston Celtics ekki náð sér á strik. Margir góðir leikmenn hafa komið við sögu hjá liðinu, þar á meðal Chauncey Billups hjá Detroit og Antoine Walker hjá Miami Heat, en þeir náðu árangri annars staðar. En nú virðist vera að birta til hjá Boston Celtics. Það verður í það minnsta forvitnilegt að fylgjast með liðinu í vetur, en ekki vandræðalegt.

Í hnotskurn
» Boston Celtics er sigursælasta liðið í bandaríska körfuboltanum og vann 16 titla á 29 árum.
» Hjá Boston Celtics var brotið blað í sögu blökkumanna í bandarískum íþróttum.
» Í 21 ár hefur lið Boston Celtics ekki unnið meistaratitilinn í NBA og í vor var liðið næstlélegast í deildinni.
» Í sumar fékk Boston Celtics Kevin Garnett og Ray Allen til liðs við sig og standa vonir til að þeir geti ásamt Paul Pierce snúið gengi liðsins við.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert