Óvissa um bensínhita BMW og Williams og dómarar aðhafast ekkert

Ferrarimenn fagna sigri og titli Räikkönen í Sao Paulo.
Ferrarimenn fagna sigri og titli Räikkönen í Sao Paulo. ap

Dómarar kappakstursins í Sao Paulo í Brasilíu ákváðu í nótt, að refsa ekki BMW og Williams fyrir að vera með of kalt bensín í bílum sínum þar sem þeim þótti ekki sannað að bensínhitinn hafi verið utan leyfilegra marka.

Dómararnir segjast ekki geta staðhæft með fullri vissu, að bensínið í bílum Nico Rosberg hjá Williams, Robert Kubica hjá BMW og Nick Heidfeld hjá BMW hafi verið meira en 10 gráðum kaldara en lofthiti.

Dómararnir segja misræmi vera milli 37°C lofthitans sem rekstraraðilinn FOM [Formula One Management] og opinbers veðurfarsfulltrúa FIA og keppnisliðanna, frönsku veðurstofunnar Meteo France, sem var nokkrum gráðum lægri.

Þá sögðust dómararnir ekki hafa tiltekin gögn undir höndum sem auðveldað hefði þeim að sanna hvort liðin tvö hafi gerst sek um brot á keppnisreglunum.

Einkum hafi vantað „nákvæma hitamælingu á bensíni um borð í bílum sem var meira en 10 gráðum kaldara en lofthitinn“. Ennfremur vanti í reglur afdráttarlaust ákvæði þess efnis að vegna ákvæða um bensínhita skuli einungis miða við lofthita sem mælitæki FOM sýni á mótsstað.

Samkvæmt keppnisreglum má bensín í bílum vera allt að 10 gráðum kaldara en lofthiti á mótsstað. Því kaldara sem bensínið er því kraftmeira er það og þess vegna er hiti þess takmarkaður.

Við mælingar tæknifulltrúi FIA reyndist bensínhitinn í bíl Nick Heidfeld 24°C og 25°C við áfyllingu í þjónustuhléum. Bensín í bíl Roberts Kubica var 23°C í fyrsta stoppi og 24°C í næstu tveimur og í bíl Nico Rosberg mældist hitinn 24°C og 25°C en í öllum tilvikum var lofthiti 37°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert