Ragna slasaðist og er úr leik

Ragna Ingólfsdóttir er úr leik í einliðaleik kvenna á ÓL …
Ragna Ingólfsdóttir er úr leik í einliðaleik kvenna á ÓL í Peking. mbl.is/Brynjar Gauti

Ragna Ingólfsdóttir er úr leik í einliðaleiknum í badminton á Ólympíuleikunum í Peking. Ragna slasaðist á hné í 2. lotu gegn Eriko Hirose frá Japan. Ragna tapaði 1. lotunni 21:6 og þegar staðan var 19:7 í 2. lotu fyrir Hirose gaf vinstra hnéð sig á Rögnu og varð hún að hætta keppni.

Ragna mætti til leiks í Peking með slitið krossband á vinstra hné og er líklegt að eitthvað meira hafi gefið sig í leiknum. Ragna var flutt til aðhlynningar á sjúkrastofu hjá læknum í keppnishöllinni.

„Ég gaf allt í þetta en það kom bara í ljós að hnéð á mér er það veikt að þetta gat komið fyrir hvenær sem er. Ég er eiginlega glöð að þetta kom ekki fyrir á æfingu í gær, ég fékk tækifæri til þess að leika á Ólympíuleikum og ég komst hingað nánast á öðrum fætinum. Ég hlakka til að komast í aðgerð á hnénu þar sem að krossbandið verður lagað, og ég ætla ekki að leggja árar í bát og hætta. Þetta mun bara styrkja mig í framhaldinu og ég kem sterkari til leiks,“  sagði Ragna Ingólfsdóttir við mbl.is eftir leikinn. Hún mun á næstu vikum ráðfæra sig við sérfræðinga hvenær aðgerðin á hnénu fer fram.

Ítarlega verður fjallað um Rögnu Ingólfsdóttur í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins.

Ragna Ingólfsdóttir er úr leik á ÓL.
Ragna Ingólfsdóttir er úr leik á ÓL. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert