Ragnheiður komst ekki í úrslit

Ragnheiður Ragnarsdóttir.
Ragnheiður Ragnarsdóttir. Brynjar Gauti

Sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir hafnaði í 13. sæti í undanúrslitum í 100 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 m laug sem nú stendur yfir í Eindhoven í Hollandi. Ragnheiður var að ljúka sundinu. Hún kom í mark á 54,91 sekúndu sem er nokkru lakari tími en hún náði í undanrásum í morgun.

Þá synti hún á 54,83 sekúndum en Íslandsmet Ragnheiðar er 54,65 en það setti hún í Laugardalslaug 12. nóvember.

Ragnheiður synti á sjöundu braut í síðari riðli undanúrslitanna. Hún var með fjórða besta tímann eftir 25 metra en náði ekki að halda þeim hraða á síðari hluta sundsins.  Tvær sundkonur voru með lakari tíma en Ragnheiður í fyrri riðlinum. 

Sú sem varð áttunda og síðust inn í úrslitasundið í 100 m skriðsundi synti á 54,42 sekúndum. 

Bryndís Rún Hansen og Ragnheiður synda í 50 m flugsund á mótinu í fyrramálið og Ragney Líf Stefánsdóttir  keppir í 100 m skriðsundi í fötlunarflokki S10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert