Elsa: Vorum of hörð við okkur

Frá leiknum í Fagralundi í kvöld.
Frá leiknum í Fagralundi í kvöld. Styrmir Kári

Elsa Sæný Valgeirsdóttir, þjálfari Íslands- og bikarmeistara HK, sagði sína menn hafa farið út af sporinu í kvöld þegar liðið tapaði 2:3 fyrir Stjörnunni eftir að hafa komist í 2:0. 

HK er einum sigri frá því að verja Íslandsmeistaratitilinn og var því aðeins einni hrinu frá því í leiknum í kvöld. Liðið tapaði hins vegar eftir mikla spennu í fjórðu og fimmtu hrinu. Spurð um hvort leikmenn hennar hafi verið komnir með hugann við sigurhátíðina sagði hún svo ekki vera en einbeitingarleysi hafi hins vegar orðið liðinu að falli. 

„Ekki sigurhátíð heldur hættum við að spila okkar leik. Við hættum að setja pressu á okkur sjálf um að spila betur. Ég held að ástæðan sé frekar sú að persónulegu markmiðin hafi dottið svolítið upp fyrir,“ sagði Elsa sem var eðlilega óánægð með síðustu þrjár hrinurnar.

„Upp kom hræðsla og örvænting hjá mönnum í stað þess að einhverjir stigu fram og tækju af skarið. Okkur gekk ekki vel að leysa þær stöður sem upp komu. Við urðum of hörð við okkur sjálf yfir því að tapa nokkrum boltum. Það var óþarfi því pressan var á Stjörnunni en ekki okkur. Tilfinningin er eins og við höfum tapað titlinum þó það sé ekki raunin. Við erum náttúrlega með háar væntingar til okkar spils og mér fannst við ekki standa vel undir þeim í dag.“

Elsa segir svolítið erfitt að spá fyrir um næsta leik því hann fer ekki fram fyrr en eftir rúma viku og í millitíðinni eru landsliðsæfingar á dagskrá. „Þetta setur auðvitað meiri pressu á okkur. Það hefði verið rosalega ljúft að geta farið inn í landsliðsæfingar um Páskana án þess að hugsa um Íslandsmótið. Næstum allir mínir menn verða á landsliðsæfingunum og undirbúningurinn riðlast því eitthvað. Það á samt ekki að hafa úrslitaáhrif heldur ættu þessi úrslit að vera spark í rassinn á mönnum og áminning um að slaka ekki á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert