Tíu stiga áhlaup gaf Garðbæingum kraft

Garðbæingar fagna sigrinum í kvöld.
Garðbæingar fagna sigrinum í kvöld. Styrmir Kári

Emil Gunnarsson, einn af lykilmönnum Stjörnunnar, var kampakátur eftir sætan sigur Stjörnunnar á HK í þriðja leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki í kvöld. 

Garðbæingar snéru við svo gott sem töpuðu tafli í sigur í rúmlega tveggja klukkutíma löngum leik. HK komst í 2:0 með sannfærandi sigri í fyrstu tveimur hrinunum. HK vann tvo fyrstu leikina í rimmunni og Stjarnan þurfti því að vinna þrjár hrinur í röð til að halda lífi í Íslandsmótinu. Það gerðu Garðbæingar og unnu oddahrinuna 16:14 og þar með leikinn. 

„Við vorum með bakið upp við veginn og þá var ekkert annað að gera en gefa allt í þetta. Okkar lykilleikmaður Róbert Hlöðversson fór í gang og móttakan efldist. Hann fór að sækja á boltann og var rosalega sterkur í sókninni. Við hinir vorum ekki nógu sterkir í sókninni en hann dró vagninn. HK-ingar misstu tökin á sinni móttöku og þá snérist leikurinn,“ sagði Emil og hann sagðist hafa öðlast trú á að Stjarnan gæti snúið dæminu við um miðja þriðju hrinuna.

 „Ætli það hafi ekki verið þegar við vorum undir 10:5 og þá fór einn af ungu strákunum okkar í uppgjöfina. Við náðum að ég held tíu stigum í röð. Það gefur manni auðvitað þann kraft sem þarf til að komast af stað í svona leik. Þetta voru flotuppgjafir og þær gáfu okkur vopnið sem þurfti. Þar sáum við hvaða leið var fær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert