Nibali vinnur Tour de France - 3.663,5 km að baki

Vincenzo Nibali.
Vincenzo Nibali. AFP

Ítalinn Vincenzo Nibali vann í dag glæstan sigur í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France. Nibali hjólaði niður breiðstrætið Champs-Élysées í Parísarborg, líkt og siður er að gera á síðustu dagleið hjólreiðanna við mikinn fögnuð áhorfenda.

Það hafði legið lengi í loftinu að Nibali stæði uppi sem sigurvegari en hann hefur klæðst gulu treyjunni, sem sá klæðist sem er á besta tímanum í heildina, frá 7. júlí. Dagleiðirnar í Tour de France eru 21 talsins og fá keppendur þrjá hvíldardaga. Heildarvegalengdin er litlir 3.663,5 kílómetrar.

Það munaði sjö mínútum og 37 sekúndum á Nibali og næsta manni, Frakkanum Jean-Christophe Peraud. Það er mesti munur frá því að Jan Ullrich vann með meira en níu mínútna mun árið 1997.

Vincenzo Nibali (t.v.). Sigurboginn í baksýn.
Vincenzo Nibali (t.v.). Sigurboginn í baksýn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert