„Ég hefði haldið áfram að ljúga“

Lance Armstrong
Lance Armstrong Mynd/AFP

Í nýju viðtali við sjónvarpsstöðina CNN viðurkennir hjólreiðakappinn Lance Armstrong að ef ekki hefði komist upp um ólöglegu lyfjanotkunina hans, hefði hann haldið áfram að ljúga. Armstrong viðurkenndi notkunina í frægu viðtali við Opruh Winfrey árið 2013. 

Armstrong sigraði í hjólreiðakeppninni Tour de France sjö ár í röð, frá 1999-2005. Árið 2013 voru sigrarnir hins vegar teknir af honum eftir að alríkisrannsókn í Bandaríkjunum leiddi til þess að hægt var að sanna ólöglega lyfjanotkun hans. Hann viðurkenndi að lokum að hann neytti ólöglegra lyfja. „Ef ég hefði ekki verið undir alríkisrannsókn hefði ég að öllum líkindum haldið áfram að ljúga, af sömu sannfæringu og áður,“ segir Armstrong í viðtalinu. 

„Það var enginn sem þvingaði mig til þess að nota ólögleg lyf. Þetta er því allt saman mér sjálfum að kenna. Það er það mikilvægasta í þessu máli,“ segir Armstrong og bætir við að daglegt líf hans eftir uppjóstrunina sé þægilegra en hann bjóst við. „Ég hef aldrei fengið að heyra það frá neinum. Ég bjóst ekki við þeim viðbrögðum. Stundum held ég að einhver sé að fara að hella sér yfir mig, en svo heyrist ekki neitt.“

Armstrong hefur verið í mörgum viðtölum á undanförnum vikum en segir að það sé ekki liður í því að bæta ímynd hans. „Það er engin PR-herferð í gangi. Það er ekki eins og ég setjist niður með ráðgjöfum mínum og við ákveðum að ég ætli í viðtal við CNN eða Esquire. 

Í viðtalinu upplýsir Armstrong einnig um að hann sé nú að vinna að þriðju bók sinni. Að hans eigin sögn verður sú bók einlæg og dramatísk. „Ég verð að skrifa bók sem er alveg „hrá.“ Bókin verður að vera í réttum tón, og hún mun ekki innihalda neina vitleysu.“

Sjá frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert