Esja lagði Íslandsmeistarana

Ólafur Björnsson, grænklæddur, og félagar hans í Esju fögnuðu sigri …
Ólafur Björnsson, grænklæddur, og félagar hans í Esju fögnuðu sigri í kvöld. mbl.is/Golli

Tveir leikir fóru fram á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld og útisigrar litu dagsins ljós í báðum tilfellum. SA Víkingar og UMFK Esja  áttust við á Akureyri og Esjan kom á óvart og skellti Íslandsmeisturunum 5:2.  Í  Grafarvogi mættust Björninn og SR í fjörugum leik. SR-ingar höfðu betur 4:3 eftir spennandi leik.

Víkingar og Esja höfðu mæst einu sinni áður í vetur þar sem Víkingar unnu auðveldan 8:3 sigur á Esju í Laugardalnum. Esjumenn voru greinilega á því að láta leikinn ekki endurtaka sig og komust 3:1 strax í fyrstu lotu fyrir norðan í kvöld. Fyrir síðustu lotan var staðan orðin 4:1 fyrir Esu en Akureyringar minnkuðu muninn í 2:4 snemma í lokalotunni. Lengra komust þeir þó ekki og Egill Þormóðsson kórónaði stórleik sinn og skoraði fimmta mark Esjunnar á lokamínútunni þegar meistararnir höfðu tekið markvörð sinn út af.

Í Egilshöllinni byrjuðu SR-ingar mjög vel og voru 2:0 yfir að loknum fyrsta leikhluta. Þeir bættu við þriðja marki sínu í öðrum leikhluta en þá tók Björninn við sér. Þegar annar leikhluti var hálfnaður hafði Björninn skorað tvívegis en Tómas Tjörvi Ómarsson kom SR í 4:2. Björninn náði að laga stöðuna aftur fyrir lok þriðja leikhluta. Mikið skorað í Grafarvoginum. Síðasti leikhlutinn var hins vegar öllu rólegri og þrátt fyrir ágætar sóknir Bjarnarins var ekki meira skorað og lokatölurnar 4:3 fyrir SR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert