Tók þetta á þrjóskunni og reynslunni

Þorbjörg Ágústsdóttir.
Þorbjörg Ágústsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Ágústsdóttir bætti enn einum Norðurlandameistaratitli í safn sitt í skylmingum með höggsverði á Norðurlandamótinu sem haldið var hér á landi um nýliðna helgi. Þorbjörg hafði betur en Maja David frá Finnlandi, 15:10, í úrslitabardaganum.

„Þetta var tíundi Norðurlandatitillinn sem ég vinn á síðustu ellefu árum og það var virkilega gaman. Mig langaði mikið til að ná þessum tíunda titli og það tókst. Ég þurfti að hafa fyrir þessum. Ég er í ágætisformi en ég tók þetta núna kannski meira á þrjóskunni og reynslunni. Vegna námsins hef ég þurft að vera mikið á gosstöðvunum í Holuhrauni og hef ekki getað sinnt æfingunum alveg nógu vel,“ sagði Þorbjörg við Morgunblaðið í gær.

Það er óhætt að segja að Þorbjörg hafi haft í nógu að snúast undanfarnar vikur og mánuði. Hún stundar doktorsnám í jarðeðlisfræði við Cambridge-háskóla á Bretlandi og hún var ásamt skólabróður sínum á meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang þegar eldgosið hófst í Holuhrauni.

„Ég hef náð að æfa nokkuð vel síðasta mánuðinn, sem þykir kannski ekkert voðalega mikið en ég hef mikið keppnisskap og reynslu og það kom að góðum notum á Norðurlandamótinu. Ég var heima á Íslandi í sumar vegna þess að Cambridge-háskólinn er með marga skjálftamæla sem þarf að þjónusta og eftir að fór að gjósa hef ég þurft að vera mikið á gosstöðvunum. Það varð líka til þess að ég gat verið með á Norðurlandamótinu,“ sagði Þorbjörg sem hefur þurft að vinna mikið á nóttunni við að lesa úr gögnum. „Það hafa oft verið langar nætur en ég vinn betur ef ég æfi og ég æfi á hverjum degi þó svo að ég vinni mikið.“

Sjá allt viðtalið við Þorbjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert