Esja lagði meistarana í framlengingu

Ólafur Björnsson og félagar í Esju unnu góðan sigur á …
Ólafur Björnsson og félagar í Esju unnu góðan sigur á meisturunum í kvöld. mbl.is/Golli

UMFK Esja bar í kvöld sigurorð af SA Víkingum með fjórum mörkum gegn þremur í framlengdum leik sem fram  fór á Akureyri í íshokkí karla.

Esjumönnum hafði bæst liðsauki því nýlega fékk tékkneski leikmaðurinn Daníel Kolar félagaskipti yfir í Esju en Daníel hefur undanfarin ár leikið með Birninum og þar á undan Skautafélagi Reykjavíkur.

Það voru Víkingar sem ávallt höfðu frumkvæðið í hefðbundnum leiktíma og strax í fyrstu lotu kom Jón B. Gíslason þeim 2:0 yfir. Esjumenn komu sér þó inn í leikinn rétt fyrir lotulok, einum fleiri á ísnum, með marki frá Sturlu Snæ Snorrasyni eftir mikla baráttu fyrir framan mark Víkinga.

Þrátt fyrir að Esju hafi gengið erfiðlega í vetur að nýta sér mannamun á ísnum náðu þeir aftur að skora mark manni fleiri fljótlega í annarri lotu og var þar að verki Kole Bryce. Ingþór Árnason sá hinsvegar til þess að Víkingar færu 3:2 yfir inn í leikhléið eftir aðra lotu.

Þrátt fyrir að það væru Víkingar sem væru töluvert mikið sókndjarfari í síðustu lotunni voru það Esjumenn sem skoruðu eina mark lotunnar og var þar að verki Einar Sveinn Guðnason. Framlenging var því staðreynd og hún varði stutt. Víkingar áttu fyrstu sókn hennar en strax í þeirri næstu tryggði Pétur Maack Esju aukastigið sem í boði var.

Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:
Jón B. Gíslason 2/0
Ingþór Árnasson 1/0
Jóhann Már Leifsson 0/3
Andri Már Mikaelsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Jay LeBlanc 0/1

Refsingar SA Víkingar: 6 mínútur.

Mörk/stoðsendingar UMFK Esja:
Sturla Snær Snorrason 1/0
Kole Bryce 1/0
Einar Sveinn Guðnason 1/0
Pétur A. Maack 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/1
Michael Ward 0/1

Refsingar UMFK Esja: 6 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert