Setjið svindlarana í ævilangt bann

Ný-Sjálendingurinn Valerie Adams er besta kona heims í kúluvarpi.
Ný-Sjálendingurinn Valerie Adams er besta kona heims í kúluvarpi. AFP

Valerie Adams, tvöfaldur ólympíumeistari og ferfaldur heimsmeistari í kúluvarpi, segir að þeir íþróttamenn sem falli á lyfjaprófi eigi að sæta ævilöngu keppnisbanni.

Samkvæmt núgildandi reglum hafa frjálsíþróttamenn þurft að sæta tveggja ára keppnisbanni við fyrsta brot á reglum um lyfjaneyslu. Ákveðið hefur verið að lengja þá refsingu í fjögur ár frá og með næsta ári. Rannsóknir sýna hins vegar að neysla stera geti aukið árangur íþróttamanna löngu eftir að þeir hafi tekið út keppnisbann.

Adams vill einfaldlega að þeir sem neyta árangursaukandi lyfja eigi ekki afturkvæmt í keppni.

„Eitt sinn svindlari, ávallt svindlari. Það ætti að setja þetta fólk í ævilangt bann. Sparkið þeim út, ekki þetta tveggja ára kjaftæði,“ sagði Adams en hún er stödd í Mónakó sem ein þriggja sem tilnefndar eru sem frjálsíþróttakona ársins.

Hlauparinn bandaríski Justin Gatlin var í hópi 10 sem tilnefndir voru sem frjálsíþróttakarl ársins og vakti það mikla gagnrýni, en Gatlin hefur tvívegis fallið á lyfjaprófi, árin 2001 og 2006. Þýski kringlukastarinn Robert Harting ákvað til að mynda að draga sig úr hópi tilnefndra þar sem hann vildi ekki vera á sama lista og Gatlin.

„Þetta var ansi sterk afstaða sem hann tók. Ég styð hann. Það var flott hjá honum að gera þetta,“ sagði Adams um Harting.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert