Áfram vinna SR-ingar

Frá viðureign SR og Esjunnar fyrr í vetur.
Frá viðureign SR og Esjunnar fyrr í vetur. Ómar Óskarsson

UMFK Esja og Skautafélag Reykjavíkur mættust á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu fjögur mörk gegn tveimur mörkum Esju. SR-ingar virðast vera komnir með gott tak á Esjumönnum því  þetta var í fjórða sinn sem liðin mættust á tímabilinu og SR-ingar hafa ávallt unnið.

Esjumenn voru án Egils Þormóðssonar og hjá SR vantaði Robbie Sigurðsson en báðir þessir leikmenn hafa farið mikinn í sóknarleik sinna liða í vetur.


SR-ingar voru aðeins sókndjarfari í fyrstu lotu en hvorugu liðinu tókst þó að skapa sér mjög hættuleg tækifæri og á endanum lauk lotunni  án þess að nokkuð mark væri skorað.
Fjör færðist hinsvegar í leikinn í annarri lotu en þá náðu SR-ingar tveggja marka forystu með mörkum frá þeim Victor Andersson og Daníel Steinþór Magnússyni. Hjörtur Geir Björnsson minnkaði hinsvegar muninn fyrir Esju skömmu síðar og Pétur Maack jafnaði leikinn fyrir Esju eftir góða sendingu frá Ólafi Hrafni Björnssyni. SR-ingar gerðu hinsvegar útum leikinn í þriðju og síðustu lotunni með  mörkum frá þeim Samuel Krakauer og Arnþóri Bjarnasyni.

Með sigrinum færðust SR-ingar nær Birninum en einungis munar einu stigi á liðunum en Björninn á þó leik til góða. Næsti leikur í deildinni er á morgun laugardag en þá mætast Björninn og SA Víkingar í Egilshöll og hefst leikurinn klukkan 18.10. Það er jafnframt síðasti leikurinn í karlaflokki á þessu ári.

Mörk/stoðsendingar UMFK Esja:
Pétur Maack 1/0
Hjörtur Geir Björnsson 1/0
Ólafur Hrafn Björnsson 0/2

Refsingar UMFK Esja: 26 mínútur

Mörk/stoðsendingar SR:
Victor Andersson 1/0
Daníel Steinþór Magnússon 1/0
Samuel Krakauer 1/0
Arnþóri Bjarnasyni 1/0
Bjarki Reyr Jóhannesson 0/1
Kári Guðlaugsson 0/1
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1

Refsingar SR:  14 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert