Krister Blær sá yngsti sem fer yfir 5 metrana

Krister Blær Jónsson
Krister Blær Jónsson mbl.is/Styrmir Kári

Tvö Íslandsmet og þrjú aldursflokkamet féllu á öðru Jólamóti ÍR í Laugardalshöll í gærkvöld.

Kristinn Þór Kristinsson HSK bætti Íslandsmet karla í 600m hlaupi, hljóp á 80,74 sekúndum og Aníta Hinriksdóttir ÍR bætti kvennametið í sömu grein og hljóp á 87,65 sekúndum. Það er jafnframt met í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR bætti aldursflokkametið í 200 m hlaupi í flokki 13 ára stúlkna þegar hún hljóp á 26,09 sekúndum.

Rúsínan í pylsuendanum var svo stór bæting Kristers Blæs Jónssonar ÍR á aldursflokkameti í 18-19 ára flokki og 20-22 ára flokki pilta í stangarstökki. Krister Blær þríbætti árangur sinn og stökk fyrst yfir 4,83 m, síðan 4,93 og svo 5,03 m. Krister er yngsti Íslendingurinn til að stökkva yfir 5 metra í stangarstökki og er nú í fimmta sæti í greininni frá upphafi hér á landi.

Framfarir Kristers haf verið mjög hraðar á þessu ári og til marks um það má geta þess að á sama móti fyrir réttu ári síðan bætti Krister sig einnig og stökk þá 3,80 m.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert