Stigamet slegið

Þuríður Björg Björgvinsdóttir.
Þuríður Björg Björgvinsdóttir. Ljósmynd/ Art Bicnick

Vetrarmótið í listhlaupi á skautum hófst kl. 8:00 í morgun í Egilshöllinni. Mótið er síðasta mót vetrarins sem haldið er af Skautasambandi Íslands sem jafnframt á 20 ára afmæli í dag, 28.febrúar 2015.

Mikil eftirvænting var eftir mótinu þar sem allir okkar bestu skautarar voru skráðir til keppni auk þess að fyrrum Ólympíufari, hin 22ja ára Ivana Reitmeyerova frá Slóvakíu, var gestakeppandi í Kvennaflokki A. Ivana sýndi glæsileg stökk, tvö þreföld stökk, þar sem annað var í samsetningu þrefalt tvöfalt. Ivana fékk mikið lof áhorfenda og er með 40.39 stig eftir fyrri keppnisdag.

Unglingaflokkur A hefur aldrei verið jafn stór og nú og stigin að hækka, þar sem fleiri stúlkur eru að skora um og yfir 90 heildarstig í vetur. Baráttan var mikil meðal þeirra Þuríðar Bjargar Björgvinsdóttur, SB, Agnesar Dísar Brynjarsdóttur, SB, og Kristínar Valdísar Örnólfsdóttur, SR. Þuríður er efst eftir fyrri keppnisdag með 32.24 stig og vekur mikla athygli er hún skautar í skærbleikum heilgalla eftir lagi Bleika Paradusins. Agnes Dís sýndi mikinn kraft í æfingum sínum og er rétt á eftir Þuríði með 31.44 stig. Kristín Valdís fylgir þeim fast á hæla með 29.16 stig þrátt fyrir að hafa ekki náð alveg nógu hreinum stökkum í dag.

Í stúlknaflokki A sló Emilía Rós Ómarsdóttir, SA, stigamet í stutta prógramminu. Emilía Rós sýndi mikið öryggi í æfingum sínum, fékk 30.65 stig og er með mikla yfirburði eftir daginn. Íslandsmeistarinn 2014, Marta María Jóhannsdóttir, SA, hefur fylgt Emilíu fast eftir í vetur dró sig úr keppni á síðustu stundu vegna meiðsla. Herdís Birna Hjaltalín, SB, er í öðru sæti með 20.64 og Helga Karen Pedersen með 19.81 stig.

Emilía Rós Ómarsdóttir.
Emilía Rós Ómarsdóttir. Ljósmynd/ Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Ivana Reitmeyerova
Ivana Reitmeyerova Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert