Fyrsta tímabili Esju lauk á sigri

Esjumenn geta verið stoltir af sínu fyrsta tímabili.
Esjumenn geta verið stoltir af sínu fyrsta tímabili. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

UMFK Esja burstaði Björninn 9:1 á Íslandsmóti karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Þetta var síðasti leikur beggja liða á tímabilinu og jafnframt næstsíðasti deildarleikur tímabilsins og því var aðeins spurning um hvort liðið færi í frí með sigur í farteskinu.

Þrátt fyrir að Björninn kæmist yfir í fyrstu lotu með marki frá Edmunds Induss dugði það einungis til að halda forystunni í fyrstu lotunni. Kristján Friðrik Gunnlaugsson jafnaði metin  fyrir Esju fljótlega í annarri lotu og áður en lotan var úti höfðu þeir Ragnar Kristjánsson og Sturla Snær Snorrason bætt við tveimur mörkum og staðan 3:1 heimaliðinu í vil.

Þriðja lotan var svo öll á einn veg. Esjumenn röðuðu inn mörkum í öllum regnbogans litum og að lokum urðu þau sex. Það síðasta kom sex sekúndum fyrir leikslok og var nokkuð dæmigert fyrir leikinn því þá komst Pétur Maack einn inn fyrir á móti markmanni eftir að hafa skömmu áður lokið tveggja mínútna dvöl sinni í refsiboxinu.

Þetta var fyrsta tímabil Esju í deildinni.

Á morgun klukkan 16.30 mætast á Akureyri SA Víkingar og Skautafélag Reykjavíkur en þau lið munu leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í ár. Leikurinn mun ráða því hvort liðið hampar deildarmeistaratitlinum og fær í leiðinni heimaleikjaréttinn.

Mörk/stoðsendingar UMFK Esju:
Sturla Snær Snorrason 2/0
Mike Ward 1/2
Egill Þormóðsson 1/1
Einar Sveinn Guðnason 1/0
Kristján Friðrik Gunnlaugsson 1/0
Ragnar Kristjánsson 1/0
Matthías Sigurðsson 1/0
Pétur Maack 1/0
Róbert Freyr Pásson 0/2
Gunnar Guðmundsson 0/2
Þorsteinn Björnsson 0/1

Refsingar UMFK Esju: 37 mínútur

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Edmunds Induss 1/0
Lars Foder 0/1

Refsingar Bjarnarins: 35 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert