Eins slæmt og það gat orðið

Kári Steinn Karlsson.
Kári Steinn Karlsson. mbl.is/Golli

„Þetta var eiginlega bara afleitt hlaup, eins slæmt og það gat orðið,“ sagði Kári Steinn Karlsson sem hafnaði í 19. sæti í Hamborgarmaraþoninu sem fram fór í gær.

Kári hljóp á tímanum 2:21,30 og var talsvert frá markmiðum sínum fyrir hlaupið. Markið var sett á 2:17,00 sem hefði dugað sem lágmark á Ólympíuleikana í Rio de Janeiro í Brasilíu á næsta ári. Það hefði einnig verið nýtt Íslandsmet. Núverandi met er 2:17,12 en tíminn 2:18,00 hefði dugað sem lágmark á heimsmeistaramótið í haust. Það var aukamarkmið hjá Kára fyrir hlaupið en þar sem Kári setur stefnuna á Berlínarmaraþonið í september er ljóst að hann mun ekki ná því.

„Þetta var ekki minn dagur. Það er ekkert sem ég get kennt um annað en að þetta small ekki. Ég var stífur og þungur frá byrjun og ekki að hlaupa vel. Annars var þetta fínasta keppni, ágætis veður og braut.,“ sagði Kári við Morgunblaðið í gær.

Berlín er staðurinn

„Það byrjaði vel fyrstu 25 kílómetrana en ég fann að þetta var alltaf aðeins of erfitt. Upp úr 25 lendir maður á hálfgerðum vegg og maður sér markmiðin eitt af öðru fjara frá manni. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins dauða í hlaupi, það var allt búið í löppunum,“ sagði Kári. Þetta var sjötta maraþonið sem Kári hleypur og að hans mati það versta. Stefnan er tekin á Berlínarmaraþonið í haust til að ná Ólympíulágmarkinu en þar setti Kári einmitt Íslandsmet sitt árið 2011.

„Hamborg er ekki að reynast alveg nógu vel. Það virðist alltaf ganga vel í Berlín. Maður er alltaf með gott sjálfstraust þegar maður mætir til Berlínar,“ sagði Kári. peturhreins@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert