Chicago og New York upp við vegg

Matt Beleskey skorar sigurmark Anaheim gegn Chicago í fimmta leiknum …
Matt Beleskey skorar sigurmark Anaheim gegn Chicago í fimmta leiknum í framlengingu. AFP

Stórliðin Chicago Blackhawks og New York Rangers eru nú bæði komin upp við vegginn umtalaða í undanúrslitum NHL-deildarinnar í íshokkí.

Bæði eru þau 3:2 undir í undanúrslitarimmunum. Chicago gegn Anaheim Ducks og Rangers gegn Tampa Bay Lightning. Eins og gengur og gerist í úrslitakeppnum vestan hafs þá þarf að vinna fjóra leiki til að komast áfram.

Stóru fjölmiðlarnir á austurströndinni sáu margir hverjir fyrir sér gott umfjöllunarefni ef New York og Chicago myndu mætast í úrslitum en nú lítur út fyrir að það verði lið frá Flórída og Kaliforníu. Ekki kannski svæði sem menn tengja við ís en íshokkííþróttin er svo sem víða vinsæl. 

Báðar rimmurnar hafa verið ansi jafnar og hefur verið jafnt 1:1 og 2:2 í þeim báðum. Anaheim og New York eiga heimaleikjaréttinn í þessum rimmum ef til oddaleikja kemur. Næstu leikir verða hins vegar í Chicago og Tampa og þar geta Anaheim og Tampa Bay tryggt sér sæti í úrslitarimmunni um Stanley-bikarinn fræga. 

Steven Stamkos skorar fyrir Tampa Bay gegn Rangers.
Steven Stamkos skorar fyrir Tampa Bay gegn Rangers. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert