Litla gula hænan og stjórnvöldin

Aníta Hinriksdóttir fékk styrk frá ríkisstjórninni eftir að hafa orðið …
Aníta Hinriksdóttir fékk styrk frá ríkisstjórninni eftir að hafa orðið heimsmeistari í 800 metra hlaupi. Styrmir Kári

Þegar þetta er skrifað er tæpt ár þar til Ólympíuleikarnir hefjast og draumaáfangastaður hvers íþróttamanns er í þetta sinn Ríó. Það er ekki nema von að maður setjist aðeins niður og velti því fyrir sér hversu fjölmennur hópur íslenskra keppenda ætli verði þar í eldlínunni. Nú þegar vinna er í fullum gangi við fjárlög næsta árs vil ég opinberlega skora á stjórnvöld að hafa leikana í huga, því það er gjörsamlega ótækt hvers konar bakland okkar efnilegasta og besta afreksfólk þarf að lifa við.

Í byrjun árs var venju samkvæmt styrkjum úthlutað úr afrekssjóði ÍSÍ. Alls nam það um 120 milljónum króna og á síðum blaðsins hef ég áður komið inn á að það voru einungis 11,8% þeirrar upphæðar sem sérsamböndin sóttu um. A-styrkurinn svokallaði nemur 200 þúsund krónum á mánuði og féll í hlut níu einstaklinga sem eru vel að honum komnir, en smáa letrið segir sitt: Styrkurinn er eingöngu ætlaður til að mæta kostnaði vegna þátttöku í mótum og keppnum. Það er því í raun ætlast til þess að afreksfólk í íþróttum vinni fulla vinnu samhliða því að standast samkeppni við fremsta íþróttafólk heims.

Ég ætla að endurnota samlíkingu sem ég hef áður varpað fram á þessum vettvangi: Miðað við forgangsröðun er íslenskt íþróttalíf ekki í hávegum haft og stjórnvöld í hlutverki þeirra sem litla gula hænan mætti á förnum vegi. Og þegar spurt er, hver ætlar að styðja okkar fremsta íþróttafólk til dáða? „Ekki ég,“ segja þá stjórnvöld í kór. En svo koma allir fagnandi og vilja bita af kökunni þegar vel gengur.

Sjá viðhorfspistil Andra Yrkils í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert