„Hef ekki hugsað um allar góðu stundirnar“

Persie nær stórum áfanga í dag.
Persie nær stórum áfanga í dag. AFP

Robin van Persie leikur sinn 100. landsleik fyrir Holland þegar liðið sækir Kasakstan heim í undankeppni EM í knattspyrnu í dag. Hann segist ekki ætla að fagna þeim áfanga sérstaklega og segir að liðið verði að vinna til að eiga möguleika á því að komast til Frakklands á næsta ári.

Holland má ekki misstíga sig en þeir eru í harðri baráttu við Tyrkland um þriðja sætið í A-riðli en það sæti tryggir umspil um sæti á EM í Frakklandi. Eins og flestum er kunnugt hafa Ísland og Tékkland tryggt sér farseðil á EM úr umræddum riðli.

„Í undirbúningnum fyrir leikinn hef ég ekki hugsað um allar þær góðu stundir sem ég hef átt í landsliðstreyjunni,“ sagði van Persie við hollenska fjölmiðla.

Hann bætti við að ef aðstæður væri aðrar og Hollendingar ekki undir svona mikilli pressu myndi hann eflaust hugsa meira um þennan merka leik. „Ég hefði leitt hugann meira að þessu undir eðlilegum kringumstæðum. Að mínu mati er óviðeigandi að hugsa um eitthvað annað en leikinn mikilvæga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert