Hamborg segir nei við Ólympíuleikunum

Borgarstjóri Hamborg, Olaf Scholz, var niðurlútur.
Borgarstjóri Hamborg, Olaf Scholz, var niðurlútur. AFP

Íbúar þýsku borgarinnar Hamborg hafa greitt atkvæði gegn því að Ólympíuleikarnir árið 2024 fari fram í borginni. Atkvæðagreiðsla íbúa Hamborg og Kiel, þar sem siglingakeppnin átti að fara fram, varð þess valdandi að borgaryfirvöld hættu við að sækja um að halda Ólympíuleikana.

51,6% íbúa greiddu atkvæði gegn Ólympíuumsókninni. Rökin voru þau að kostnaður við að halda leikana væri allt of mikill og þeim peningum væri betur varið annars staðar. Róm, Búdapest, París og Los Angeles eru þar með borgirnar sem berjast um að halda leikana eftir níu ár.

Langt síðan síðast

Þýska Ólympíusambandið hafði ákveðið að Hamborg yrði framlag Þýskalands til þessara leika og eru afar svekktir með niðurstöðu kosningarinnar. Þýskaland hefur ekki haldið Ólympíuleika síðan árið 1972 þegar þeir fóru fram í München. Íbúar þar höfnuðu möguleikanum á því að halda vetrarleikana árið 2022 í atkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Olaf Schaltz, borgarstjóri í Hamborg, var svekktur þegar niðurstaðan var ljós. „Þetta er ekki sú niðurstaða sem við óskuðum en núna liggur þetta ljóst fyrir.“ Hann sagðist ennfremur virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Jákvætt eða neikvætt?

Florian Kasiske, var einn stjórnanda „Nei-herferðarinnar“ og var því ánægður með niðurstöðuna. „Þetta mál snýst um borgarstjórnmál og forgangsröðun. Fjöldi fólks kemur í borgina og hefur ekki þak yfir höfuðið og þarf að sofa í tjöldum. Það eru engir peningar til fyrir þetta fólk,“ sagði Kasiske.

Fyrrverandi handknattleikskappinn, Stefan Kretzschmar, var hundóánægður með niðurstöðuna og gagnrýndi þá sem greiddu atkvæði gegn leikunum. „Með þessu hefur leiðinni að Ólympíuheiminum verið lokað að eilífu. Þetta nei á ekki skilið neina verðlaunapeninga,“ sagði Kretzschmar á twitter.

Ákveðið verður hvar Ólympíuleikarnir árið 2024 fara fram í september 2017.

Nei-ið sigraði já-ið naumlega.
Nei-ið sigraði já-ið naumlega. AFP
Kretzschmar er ekki ánægður.
Kretzschmar er ekki ánægður. STR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert