Sigur á Lúxemborg og sæti á EM í höfn

Íslenski landsliðshópurinn og sem keppir í Lúxemborg.
Íslenski landsliðshópurinn og sem keppir í Lúxemborg. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Íslenska landsliðið í blaki kvenna vann landslið Lúxemborgar, 3:1, í annarri umferð forkeppni heimsmeistaramótsins í Lúxemborg í gærkvöldi. Mótið er jafnframt undankeppni Evrópumóts smáþjóða og með sigrinum tryggði íslenska landsliðið sér þátttökurétt á Evrópumótinu. Íslenska liðið hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu í Lúxemborg og mætir Norður-Írlandi í dag í lokaumferðinni. Vinni íslenska liðið þá viðureign tryggir það sér keppnisrétt á næsta stigi undankeppni HM.

Ísland byrjaði leikinn illa gegn Lúxemborg í gær. Liðið náði ekki góðu spili í byrjun og var lið Lúxemborgar með yfirburði til að byrja með. Ísland komst inn í leikinn og minnkaði muninn sem endaði með sigri Lúxemborgar, 25:21. Ísland seig fram úr strax í annarri hrinu sem var þó spennandi á köflum. Ísland vann hrinuna 25:19. Eftir það var þetta aldrei í hættu og vann íslenska liðið þriðju og fjórðu hrinu með sama mun, 25:17 og 25:17, og þar með leikinn, 3:1, í hrinum talið.

Stigahæst í liði Íslands var fyrirliðinn Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 17 stig, Elísabet Einarsdóttir skoraði 13 stig og Thelma Dögg Grétarsdóttir 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert