Heimsmetshafi ekki með í Ríó

Kendra Harrison.
Kendra Harrison. AFP

Bandaríski grindahlauparinn Kendra Harrison setti í gærkvöld nýtt heimsmet í 100 metra grindahlaupi kvenna á afmælismóti sem fram fer á Ólympíuleikvanginum í London, en mótið er hluti af Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum. Þar með er ljóst að heimsmetshafinn í greininni tekur ekki þátt í Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó í Brasilíu 5. ágúst næstkomandi.  

Harrison hljóp á tímanum á 12,20 sekúndur og bætti þar með heimsmetið sem búlgarska hlaupakonan Yordanka Donkova setti árið 1988, en fyrra met Donkovu sem hún setti fyrir 28 árum var 12,21 sekúnda.

Þar með er ljóst að heimsmethafinn í greininni tekur ekki þátt í Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó í Brasilíu 5. ágúst næstkomandi. Harrison átti slæman dag þegar úrtökumótið fyrir bandaríska ólympíuliðið var haldið á dögunum og náði einungis sjötta besta tímanum þar. Það dugði ekki til þess að komast í bandaríska ólympíuliðið.

Harrison, sem er heimsmethafi í 100 metra grindahlaupi, á sex af sjö bestu tímum ársins í greininni og tvo af fjórum bestu tímum sögunnar, þarf því að bíta í það súra epli að fylgjast með Ólympíuleikunum vegna slæms dagsforms síns í úrtökumótinu fyrir bandaríska ólympíuliðið

„Ég var staðráðin í að sýna hvað í mér býr og hvað ég hefði getað afrekað á Ólympíuleikunum eftir að mér mistókst að tryggja mér sæti í ólympíuliði Bandaríkjanna. Það er virkilega erfitt að komast í ólympíulið Bandaríkjanna þar sem einungis þrír bestu tímarnir veita sæti í liðinu,“ sagði Harrison í samtali við fjölmiðla eftir að hafa sett heimsmet í gær.

„Ég náði ekki að höndla pressuna nægjanlega vel þegar mest reið á og því fór sem fór. Ég vildi óska þess að ég fengi annað tækifæri til þess að hlaupa og tryggja mér sæti, en það er því miður ekki möguleiki,“ sagði Harrison enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert