Blakfólk Rússa fær að vera með

Rússar fá að vera með í blaki og strandblaki.
Rússar fá að vera með í blaki og strandblaki. AFP

Alþjóðablaksambandið hefur heimilað rússneskum keppnisliðum í blaki og strandblaki að taka þátt í Ólympíuleikunum í Ríó í næsta mánuði.

Þar með hafa Rússar fengið fullan keppnisrétt í átta greinum, bogfimi, hestaíþróttum, skylmingum, júdó, skotfimi, tennis, þríþraut og blaki.

Frjálsíþróttafólkið rússneska er í algjöru banni, ásamt sumum keppendum í sundi, róðri, nútíma fimmtarþraut, kajakróðri og siglingum.

Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess hvort Rússar fái að keppa í badminton, hnefaleikum, hjólreiðum, golfi, fimleikum, handbolta, borðtennis, taekwondo, lyftingum og grísk/rómverskri glímu.

Það er í höndum hvers heimssambands fyrir sig að ákveða um keppnisheimild Rússanna, í kjölfarið á ákvörðun alþjóðaólympíunefndarinnar þess efnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert