Björninn lék Akureyringa grátt

Úlfar Andrésson skorar í leik gegn SA á dögunum. Hann …
Úlfar Andrésson skorar í leik gegn SA á dögunum. Hann gerði tvö mörk í kvöld og átti tvær stoðsendingar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Björninn vann stórsigur á Íslandsmeisturum SA, 7:0 á Íslandsmóti karla í íshokkí í Egilshöllinni í kvöld og í Laugardalnum vann Esja góðan sigur á SR, 4:1.

Esja er því á toppnum eftir tvær umferðir með 6 stig, Björninn og SR eru með 3 stig en SA hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.

Úlfar Andrésson, Hugi Stefánsson og Brynjar Bergmann komu Birninum í 3:0 í fyrsta hluta gegn SA. Elvar Ólafsson og Úlfar bættu við mörkum í öðrum hluta og þeir Edmunds Induss og Brynjar innsigluðu sigurinn í þeim þriðja, 7:0. Úlfar og Brynjar áttu einnig tvær stoðsendingar hvor, sem og Falur Birkir Guðnason.

Í Laugardal skoraði Ólafur Björnsson fyrir Esju í fyrsta hluta en Miloslav Racansky jafnaði fyrir SR í öðrum hluta. Gunnlaugur Guðmundsson var fljótur að svara fyrir Esjumenn. Ólafur Björnsson gerði síðan út um leikinn í síðasta hlutanum með tveimur mörkum í viðbót, 4:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert