Öruggur sigur hjá HK

Emil Gunnarssyni, þjálfari HK, fer yfir málin með liði sínu …
Emil Gunnarssyni, þjálfari HK, fer yfir málin með liði sínu í leik liðsins gegn Þrótti Reykjavík. Ljósmynd/Lúðvík Matthíasson

HK og Þróttur Reykjavík mættust í Mizuno-deild kvenna í blaki í kvöld. Leikurinn fór fram í Fagralundi, heimavelli HK, í Kópavogi. HK vann öruggan sigur, en lokatölur urðu 3:0 heimamönnum í vil. 

Tímabilið er nýhafið í blakinu og fyrir leikinn var lið Þróttar Reykjavíkur á toppi deildarinnar eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni. Lið HK spilaði hins vegar sinn fyrsta leik á tímabilinu og komu þær sterkar til leiks og höfðu mikla yfirburði allan leikinn.

HK hefur styrkt sinn hóp síðan á síðastliðnu tímabili, þar sem Hjördís Eiríksdóttir og Birta Björnsdóttir, báðar landsliðskonur í blaki, komu til liðsins í sumar. Lið Þróttar Reykjavíkur er mestmegnis skipað ungum leikmönnum og sýndu bæði lið frábæra takta í leiknum. Þróttarar vörðust oft á tíðum glæsilega og dugnaðurinn var í fyrirrúmi. Lið HK reyndist þó einfaldlega of sterkt í kvöld og nældu í þrjú stig.

Fyrsta hrina fór rólega af stað, en svo sigu HK-ingar fram úr og unnu mikilvægan 25:14 sigur í hrinunni. Leikgleði og sjálfstraust skein af liði HK og sást það vel þegar kom inn í aðra hrinu, sem endaði 25:10 fyrir HK. Þriðja og síðasta hrina leiksins gekk svo á svipaðan hátt og hinar tvær þar sem HK hafði betur, 25:11.

Atkvæðamestar í liði HK voru kantsmassararnir Hjördís Eiríksdóttir, með 18 stig, og Elísabet Einarsdóttir, með 15 stig. Í liði Þróttar skoraði Sunna Björk Skarphéðinsdóttir fjögur stig og Eldey Hrafnsdóttir skoraði þrjú stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert