Ísland í boðsundum á HM í dag

Bryndís Rún Hansen keppir í 100 metra skriðsundi og í …
Bryndís Rún Hansen keppir í 100 metra skriðsundi og í boðsundi í dag. mbl.is/Ómar

Heimsmeistaramótið í sundi í 25 metra laug heldur áfram í Windsor í Kanada í dag. Ísland á sveitir í tveimur boðsundsgreinum.

Bryndís Rún Hansen úr Óðni er eini fulltrúi Íslands sem keppir í einstaklingsgrein í dag, en hún keppir í 100 metra skriðsundi um kl. 15.35 að íslenskum tíma.

Bryndís er sömuleiðis í sveit Íslands sem keppir í 4x50 metra fjórsundi kvenna. Þar syndir hún flugsund en Eygló Ósk Gústafsdóttir baksund, Hrafnhildur Lúthersdóttir bringusund og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir skriðsund.

Ísland á einnig sveit í 4x50 metra skriðsundi í blönduðum flokki, þar sem tveir karlar og tvær konur keppa. Samkvæmt frétt á heimasíðu Sundsambandsins í dag lá ekki fyrir þá hvernig sveit Íslands verður skipuð í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert