Landsmet blönduðu sveitarinnar á HM

Eygló Ósk Gústafsdóttir tók þátt í að setja tvö Íslandsmet …
Eygló Ósk Gústafsdóttir tók þátt í að setja tvö Íslandsmet í boðsundum á HM í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Blönduð sveit Íslands setti rétt í þessu landsmet í 4x50 metra skriðsundi á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í Windsor í Kanada.

Sveitin synti á 1:36,78 mínútu en hana skipuðu Aron Örn Stefánsson, Davíð Hildibrand Aðalsteinsson, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir.

Íslandsmetið í greininni er 1:38,63 mínúta, sett af sveit ÍBR árið 2014, en Eygló var einnig í þeirri sveit, sem og þau Alexander Jóhannesson, Kristinn Þórarinsson og Inga Elín Cryer.

Munurinn á landsmeti og Íslandsmeti er sá að landsmet setur úrvalslið þjóðar en Íslandsmet setur sveit skipuð keppendum úr sama félagi.

Íslenska sveitin hafnaði í sextánda sæti af 28 þjóðum en átta efstu komust í úrslitasundið í greininni. Til að ná þangað þurfti að synda á 1:32,58 mínútu.

Systurnar Eygló og Jóhanna settu því tvö met í boðsundum á HM í dag en þær voru í sveit Íslands í 4x50 m fjórsundi kvenna sem gerði slíkt hið sama fyrr í dag. Eygló setti auk þess Íslandsmet í 50 m baksundi í fjórsundinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert