Yfir 1.000 Rússar nýttu sér ólögleg lyf

Richard McLaren er höfundur skýrslunnar.
Richard McLaren er höfundur skýrslunnar. AFP

Í nýrri skýrslu um lyfjamisnotkun íþróttafólks í Rússlandi segir að yfir 1.000 Rússar hafi nýtt sér ólögleg lyf til að auka árangur sinn á árunum 2011-2015, með aðstoð ríkisins.

Um er að ræða lokahluta McLaren-skýrslunnar og þar segir að íþróttafólkið hafi ekki upp á sitt einsdæmi notað ólögleg lyf, heldur farið eftir ríkisstyrktri áætlun. Á meðal íþróttafólksins eru fjórir verðlaunahafar frá Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí og fimm frá Ólympíuleikunum í London 2012.

Richard McLaren er höfundur skýrslunnar en hann var ráðinn af Alþjóðalyfjaeftirlitinu til verksins. Hann segir lyfjamisnotkunina af stærðargráðu sem ekki hafi áður þekkst.

„Þessu var haldið leyndu og þróaðist út í eins konar stofnun sem vann að því að búa til verðlaunahafa,“ sagði McLaren.

Í skýrslunni segir að lyfjanotkunarkerfi Rússa hafi verið breytt og bætt með hverju ári til að bregðast við betra lyfjaeftirliti.

Rússar unnu til 72 verðlauna á ÓL í London, þar af 21 gullverðlauna, og til 33 verðlauna í Sotsjí, þar af 13 gullverðlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert