Bryndís Rún bætti sinn besta tíma

Bryndís Rún Hansen.
Bryndís Rún Hansen. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bryndís Rún Hansen komst ekki í undanúrslit í 50 metra skriðsundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug sem fram fer í Windsor í Kanada.

Bryndís Rún synti á 25,29 sekúndum í undanrásum og bætti sinn besta tíma um 75 hundraðshluta úr sekúndu. Hún varð í 31. sæti en efstu 16 keppendurnir komust í undanúrslit. Íslandsmetið í greininni er 24,94 sekúndur sem Ragnheiður Ragnarsdóttir setti árið 2010.

Aron Örn Stefánsson úr SH hafnaði í 61. sæti í 100 metra skriðsundi, en tími hans í undanrásum var 49,65 sekúndur. Hann hefði þurft að synda tveimur sekúndum hraðar til þess að komast í undanúrslit, en Íslandsmetið er 48,42 sekúndur sem Örn Arnarson setti árið 2007.

Viktor Máni Vilbergsson úr SH hafnaði svo í 53. sæti í 50 metra bringusundi, en hann synti á tímanum 28,41 sekúndu og var um tveimur sekúndum frá undanúrslitum. Jakob Jóhann Sveinsson á Íslandsmetið sem er 27,37 sekúndur.

Það verður því enginn íslenskur sundmaður í undanúrslitum eða úrslitum í kvöld en síðasti keppnisdagurinn er á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert