Gunnar gæti barist í mars

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Ljósmynd/ufc.com

Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig á meiðslum í ökkla, sem hafa haldið honum frá æfingum síðan í nóvember. 

Gunnar átti að berjast við Dong Hyun Kim í UFC í Belfast í nóvember, en hann þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðslanna. Gunnar hefur því ekki barist síðan 8. maí er hann fór illa með Albert Tumenov. 

Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, hefur staðfest það við mmaviking.com að Gunnar sé byrjaður að æfa á fullu og sé búinn að jafna sig á meiðslunum. 

Hann bætir svo við að mars eða apríl sé líklegur tími fyrir endurkomu Gunnars til að snúa aftur í búrið. Gunnar er í 10. sæti á lista UFC yfir bestu mennina í veltivigt, sem er 71-77 kg flokkur. 

Gunnar hefur unnið sex af átta bardögum sínum í UFC, sem er stærsti vettvangur heims í blönduðum bardagaíþróttum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert