HK-ingar höfðu aftur betur

Úr leik HK og KA í gær.
Úr leik HK og KA í gær. Ljósmynd/Þorsteinn Gunnar Guðnason

HK fékk KA í heimsókn í Fagralund annan daginn í röð í Mizuno-deild karla í blaki í gær, en leik liðanna á laugardag lauk með sigri HK 3:2.

Leikur liðanna í gær virtist ætla að spilast á svipaðan hátt og fyrri leikurinn. Nokkuð jafnt var á tölum liðanna í fyrstu tveimur hrinunum sem þó enduðu báðar með sigri heimamanna, 25:23 og 25:22.

Í 3. hrinu fóru heimamenn mun betur af stað og komust í 10:5. Þá kom góður kafli hjá KA-mönnum þar sem þeir unnu næstu 8 stig og staðan því orðin 13:10 fyrir KA. HK-ingar hrukku þá í gang og löguðu stöðuna en KA-menn voru sterkari á lokasprettinum og unnu hrinuna 25:20.

4. hrina byrjaði nokkuð jöfn en um miðja hrinu fóru HK-ingar að síga fram úr og á meðan lítið gekk upp hjá KA-mönnum nýttu HK-ingar sér það til að landa öllum þremur stigunum í leiknum. Lokatölur 25:17 HK í vil sem með því sigraði leikinn 3:1. 

Stigahæstir í liði HK voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 25 stig og Andreas Hilmir Halldórsson með 13 stig. Hjá KA var Hristiyan Dimitrov með 22 stig og Mason Casner með 14 stig.

Theódór og Hristiyan voru einnig stigahæstir í sínum liðum á laugardag og skiptust í dag á að stríða andstæðingnum með firnasterkum uppgjöfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert