Sigraði með látum

María Rún Gunnlaugsdóttir efst á palli, Irma Gunnarsdóttir fékk silfur …
María Rún Gunnlaugsdóttir efst á palli, Irma Gunnarsdóttir fékk silfur og Ásgerður Jana Ágústsdóttir fékk brons. mbl.is/Árni Sæberg

María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH og Tristan Freyr Jónsson úr ÍR sigruðu á Meistaramóti Íslands í fjölþraut sem fram fór í Kaplakrika um helgina.

María fékk alls 3.869 stig í fimmtarþrautinni. Ef til vill má segja að María hafi sigrað með látum því í síðustu greininni, 800 metra hlaupi, hrasaði hún á endasprettinum og féll nánast yfir marklínuna. „Hlaupið var nokkuð gott þar til síðustu metrana þegar ég fékk krampa. Ég datt því á endasprettinum og það var nokkuð skrautlegt. Þar fóru nokkrar sekúndur en maður getur hlegið að þessu,“ sagði María létt þegar Morgunblaðið heyrði í henni hljóðið í gærkvöldi.

Sjá: María Rún sigraði þrátt fyrir að hrasa

María var ánægðust með grindahlaupið ef horft er á stakan árangurinn í greinunum fimm. „Langstökkið og grindin gekk mjög vel en hástökkið og kúlan ekki alltof vel. En þetta var samt fínt á heildina litið. Ég bætti mig í grindinni og er ánægðust með þá grein í þetta skiptið,“ sagði María.

Stefndi að 5.500 stigum

Tristan Freyr setti piltamet, sem er flokkur 22 ára og yngri, þegar hann fékk 5.596 stig. Tristan er einungis 19 ára og átti því ekki von á því að bæta metið í flokknum sem var í eigu Einars Daða Lárussonar.

Sjá: Tristan vann sjöþrautina á nýju meti

„Ég á þrjú ár eftir í flokknum og er því mjög sáttur við að bæta mig svona mikið í minni fyrstu sjöþraut í þessum flokki. Ég hafði ekki einu sinni kíkt á hvert metið var en eftir gott gengi fyrri keppnisdaginn þá athugaði ég hvert metið var. Markmiðið fyrir helgina var 5.500 stig og árangurinn var því umfram væntingar,“ sagði Tristan við Morgunblaðið og hann er alsæll með þessa byrjun á árinu.

„Þetta er mjög góð byrjun á árinu enda fyrsta alvörumótið eftir þungar æfingar. Framundan eru Reykjavíkurleikar. Mér skilst að þar standi mér til boða að taka þátt í þremur greinum. Ég geri ráð fyrir því að keppa alla vega í langstökki.“

Ingi Rúnar Kristinsson, Tristan Freyr Jónsson og Ísak Óli Traustason …
Ingi Rúnar Kristinsson, Tristan Freyr Jónsson og Ísak Óli Traustason á verðlaunapalli í gær. mbl.is/Freyja Gylfadóttir
María Rún eftir að hafa hrasað í 800 metra hlaupinu.
María Rún eftir að hafa hrasað í 800 metra hlaupinu. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert