Ari á sér stóran draum

Ari Bragi Kárason kemur í mark.
Ari Bragi Kárason kemur í mark. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er æðislega gaman að landa þessum titli og ég var auk þess mjög nálægt mínu besta,“ sagði Ari Bragi Kárason úr FH, Íslandsmeistari í 60 metra hlaupi, en Meistaramót Íslands fór fram í Laugardalshöll um helgina.

Ari Bragi vann 60 metra hlaupið á 7 sekúndum sléttum en hann náði sínum besta tíma frá upphafi á Reykjavíkurleikunum fyrir skömmu, þegar hann hljóp á 6,93 sekúndum. Blikarnir Björgvin Brynjarsson og Juan Ramon Borges urðu í 2. og 3. sæti, á 7,07 og 7,11 sekúndum.

Ari Bragi stefnir hátt á næstu árum og stærsti draumurinn er sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020. Hann bætti gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í 100 metra hlaupi síðasta sumar og það gerði ekkert annað en að auka hungur þessa 28 ára gamla spretthlaupara í árangur:

„Ekki spurning. Það var bara fyrsti áfanginn af þremur sem eru svona draumamarkmiðin mín í þessu. Næsta markmið er að vinna mér sæti á stórmóti eins og til dæmis Evrópumeistaramóti. Þriðja og síðasta markmiðið er svo að komast á Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Það er draumurinn,“ sagði Ari. 

Með þennan draum að leiðarljósi hafa þeir Einar Þór Einarsson, þjálfari Ara hjá FH, hafið samstarf við breskan spretthlaupaþjálfara og hefur Ari meðal annars æft í Bretlandi í vetur. Hann hafði vonast til þess að sjá meiri og augljósari árangur af samstarfinu nú þegar, en viðurkennir að hann þurfi kannski að sýna þolinmæði.

Nánar er rætt við Ara Braga í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert