Íslenskir júdómenn gerðu það gott

Sveinbjörn Iura, til vinstri.
Sveinbjörn Iura, til vinstri. mbl.is/Kristinn

Íslenskir júdómenn gerðu það gott á Matsumae Cup-mótinu í Vejle í Danmörku um nýliðna helgi en þetta fyrsta keppnisferð íslenska landsliðsins undir stjórn nýs landsliðsþjálfara Jóns Þórs Þórarinssonar.

Eins og fram kom á mbl.is í gærkvöld vann Sveinbjörn Iura til bronsverðlauna í -81 kg flokki en fleiri gerðu það gott en Sveinbjörn.

Alexander Heiðarsson keppti í U21 árs -55 kg flokki þar sem keppt var í tveimur riðlum. Hann vann sinn riðil og komst í undanúrslit og gat komist í úrslitin en því miður tapaði hann þar og endaði í þriðja sæti.

Úlfur Böðvarsson keppti í U21 -90 kg þar sem keppt var í tveimur riðlum og komst Úlfur upp úr sínum riðli og í undanúrslit þar sem hann tapaði og endaði því með bronsið.

Grímur Ívarsson sem keppti í U21 árs -100 kg fyrri keppnisdaginn og komst ekki á pall þar gerði hins vegar betur seinni keppnisdaginn í karlaflokki í -100kg. Keppt var í tveimur riðlum og vann Grímur sinn riðil örugglega og meðal annars Takaya frá Japan sem varð í öðru sæti í opna flokknum síðar um daginn. Grímur var þar með kominn í undanúrslitin og mætti þar í þriðja sinn á tveimur dögum Mathias Madsen frá Danmörku (silfurhafa frá EM 2016 í U18), þeim sama og hann keppti við í U21 árs. Mathias hafði betur og Grímur endaði með bronsverðlaunin.

Árni Lund sem var að keppa í fyrsta sinn í seniora-flokki erlendis keppti í -81 kg flokki karla og mætti sínum fyrsta japanska andstæðingi. Hann tapaði þeirri viðureign en fékk uppreisnarglímu þar sem hann mætti Breta sem hann vann en tapaði næstu gegn Svía og endaði í þrettánda sæti en hafði daginn áður orðið sjöundi í U21 árs -81 kg flokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert