Liðsheildin skóp sigur HK í spennuleik

HK-konur fagna eftir sigurstigið. Í forgrunni er stigahæsti leikmaður leiksins, …
HK-konur fagna eftir sigurstigið. Í forgrunni er stigahæsti leikmaður leiksins, Elísabet Einarsdóttir, nr. 12. Ljósmynd/A&R photos

HK tók á móti Aftureldingu í Fagralundi í gærkvöldi í Mizuno-deild kvenna í blaki þar sem heimakonur höfðu betur í æsispennandi leik, 3:2.

HK hafði fyrir leikinn ekki tapað leik í vetur og Afturelding tapað einum sem var einmitt á móti HK fyrr í vetur. Ljóst var að þessi leikur yrði æsispennandi frá upphafi til enda og fyrsta hrina var fremur jöfn framan af en þegar leið á hrinuna fór Afturelding að gefa í og vann hrinuna nokkuð þægilega, 25:11.

Önnur hrina var að sama skapi mjög jöfn og voru bæði lið að skora mikið úr uppgjöfum, undir lokin náði HK að sigla fram úr og endaði sú hrina 25:21, staðan 1:1 í hrinum.

Í þriðju hrinu byrjaði HK mun betur og náði mest átta stiga forskoti. Afturelding náði þó að saxa á forskotið jafnt og þétt og jafna leikinn, 14:14. Hrinan var jöfn fram að lokastigi en hún endaði með naumum sigri HK, 25:23, 2:1.

Fjórða hrina var einnig mjög jöfn og náðu gestirnir að knýja fram sigur, 25:22. Það var því ljóst að spila þyrfti fimmtu hrinuna til að knýja fram sigur, staðan 2:2.

Í oddahrinu byrjaði HK mun betur og náði átta stiga forskoti og vantaði bara eitt stig til að klára leikinn í stöðunni 14:6. Þá var eins og HK héldi að sigurinn væri í höfn en Aftureldingarstúlkur sýndu góðan karakter og komu sterkar til baka og náðu að saxa á forskotið í 14:11. HK náði hins vegar að skora lokastigið og vann hrinuna 15:11, 3:2 lokatölur, HK í vil.

HK-stúlkur eru enn ósigraðar í deildinni en eru í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir Aftureldingu en eiga þó einn leik til góða.

Stigahæst í liði HK var Elísabet Einarsdóttir með 23 stig og á eftir henni kom fyrirliðinn Fríða Sigurðardóttir með 14 stig, þar af fimm úr hávörn.

Í liði Aftureldingar var Ciennia Kincade stigahæst með 20 stig og á eftir henni var Kate Yeazel með 18 stig.

Eftir leikinn var Elísabet spurð hvað það var sem skóp þennan sigur. „Liðsheildin og sú vinna sem unnin hefur verið í allann vetur til að slípa liðið saman,“ sagði Elísabet.
HK spilar aftur í dag og tekur á móti liði KA. Leikurinn hefst kl. 18:00 í Fagralundi en með sigri skellir liðið sér á toppinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert