Íslandsmetið bara bónus

Kolbeinn Höður Gunnarsson.
Kolbeinn Höður Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég stefndi ekki á Íslandsmet heldur bara að standa mig eins vel og ég get. Metið var bara bónus,“ sagði spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson í samtali við Morgunblaðið, en hann keppti um helgina á fyrsta svæðismóti sínu innanhúss með liði Memphis-háskóla í Bandaríkjunum.

Kolbeinn bætti eigið Íslandsmet í 200 metra hlaupi um 6/100 úr sekúndu þegar hann kom í mark á tímanum 21,32 sekúndum í undanúrslitunum. Hann hafnaði að lokum í 6. sæti í greininni og í 5. sæti í 400 metra hlaupi. Þá var hann í sigursveit skólans í 4x400 metra boðhlaupi.

„200 metrarnir voru betri en ég átti von á, en ég bjóst við aðeins meira í 400 metrunum. Það kom bara svolítið upp á í úrslitunum, svo að árangurinn var svolítið eftir því,“ sagði Kolbeinn, en um mistök var að ræða í upphafi hlaupsins

„Það voru mistök hjá þeim sem ræsti hlaupið. Ég hélt að það ætti að byrja hlaupið aftur, svo ég var eiginlega staðinn upp. En þá skaut hann aftur og allir fóru af stað, svo ég sat svolítið eftir í blokkinni. Það skilaði sér í aðeins verri tíma, en ég er samt alls ekkert ósáttur við hann,“ sagði Kolbeinn, sem hljóp á 47,96 sekúndum. Íslandsmet hans er 47,59 sekúndur, svo það hefði sannarlega verið í hættu ef ekki hefði verið fyrir mistökin.

Sjá allt viðtalið við Kolbein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert