Sunna með gríðarlega stóran sigur

Sunna fagnar sigrinum í nótt.
Sunna fagnar sigrinum í nótt. Ljósmynd/Jón Viðar Arnþórsson

MMA bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann gríðarlega mikilvægan sigur á Mallory Martin á Invicta FC 22 kvöldinu í Kansas í Bandaríkjunum rétt í þessu. Bardaginn fór í þrjár lotur og vann Sunna á dómaraákvörðun. 

Einn dómaranna dæmdi Sunnu 30:27 sigur og tveir dæmdu henni 29:28 sigur. Sunna vann fyrstu lotuna mjög augljóslega og náði hún virkilega góðum höggum á Martin og vankaði hana.

Martin kom sterk til baka í 2. lotu og náði hún að skera Sunnu á vinstra auga. Þriðja lotan var svo algjör úrslitalota og þar hafði Sunna betur eftir mikla baráttu, en hún þurfti að hafa sig alla við gegn sterkum andstæðing. 

Sunna var sérstaklega sterk í boxi í bardaganum og sást mikið á andliti Martin eftir þung högg Sunnu í gegnum bardagann. 

Þetta var annar bardagi Sunnu sem atvinnumaður og unnið hefur hún unnið þá báða. Það má því búast við ansi stórum bardaga hjá Sunnu á næstunni. 

Mbl.is fylgist með gangi mála. 

01:21 - SUNNU ER DÆMDUR SIGURINN AF ÖLLUM DÓMURUNUM, ALDEILIS GLÆSILEGT!! 

01:18 - 3. lotan er búin og bardaginn er búinn. Frekar jöfn þriðja lota og það er rosaleg spenna framundan. Mér fannst Sunna gera örlítið meira en Martin í þessari lotu. Þetta verður að koma í ljós, mikið rosalega vona ég að ég hafi rétt fyrir mig. Þetta er mjög jafnt og spennandi, koma svo kæru dómarar. 

01:13 - 2. lotan er búin. Ekki eins góð lota fyrir Sunnu. Martin kom til baka og átti þung högg í andlitið á Sunnu og virðist sú íslenska vera komin með skurð á vinstra augað. Sunna virtist vankast í þessari lotu, en hún stóð það af sér. Úrslitalotan er framundan, nú er allt undir. 

01:06 - 1. lotan er búin. Sunna byrjaði virkilega vel og vann hún þessa lotu örugglega. Hún náði nokkrum fallegum höggum í andlitið á Mallory Martin. Hún hitti svo nokkrum svakalegum hnjám í magann á henni. Martin náði ekki að meiða Sunnu mikið í þessari lotu. 

01:02 - Bardaginn er byrjaður. Koma svo Sunna!

01:01 - Sunna er komin í búrið og er hún kynnt til leiks. Þetta er að fara af stað. 

00:54 - Sunna er komin á skjáinn og er hún að lýsa sér sem bardagakonu. Hún segist vera góð í öllu, hvort sem það er standandi á gólfinu. Hún segist einnig vera tilbúin og rúmlega það. Hún endar svo kynninguna með tárvot augu að tala íslensku, þar sem hún þakkar fyrir stuðninginn og segist hún finna fyrir okkur öllum í hjarta sínu. Þetta var mjög fallegt augnablik. 

00:48 - Bardaginn er búinn. Miranda Maverick vinnur Schwartz með svokölluðu arm bar í 1. lotu. Hún rétti úr hendinni hennar all hressilega og Schwartz gafst upp. Virkilega flott frammistaða hjá 19 ára stelpunni. Næsti bardagi er Sunna Rannveig Davíðsdóttir gegn Mallory Martin. Spennandi!

00:45 - Bardaginn er kominn af stað. 

00:38 - Kalyn Schwartz og Miranda Maverick mætast í 2. bardaga kvöldins og þeim síðasta áður en Sunna stígur á svið. Schwartz og Maverick eiga báðar einn atvinnubardaga á bakinu og unnið hann. Maverick er aðeins 19 ára gömul, fædd 1997.

00:35 - Það er nákvæmlega þannig. Allir dómaranir dæmdu Felicia Spencer sigur og er hún komin með tvo bardaga sem atvinnumaður og vinna þá báða. Madison McElhaney er nú með einn sigur og eitt tap. Hún virtist hreinlega uppgefin í 2. lotu og var sigur Spencer öruggur. 

00:33 - 3. lotu lokið og bardaginn búinn. Spencer virtist vinna þessa lotu. Ég trúi ekki öðru en að dómaranir dæmi hana sem sigurvegara. Það kemur í ljós eftir augnablik. 

00:25 - 2. lotu lokið.  Felicia Spencer rústaði þessari lotu. Líklegast 10:8. Hún setti McElhaney í gólfið oftar en einu sinni og var nálægt því að klára hana með föstum höggum í lok lotunnar. 

00:19 - 1. lotu lokið. Madison McElhaney kom vel til baka og kláraði lotuna betur. Heilt yfir var þetta virkilega jöfn lota og erfitt að sjá hvor þeirra vann hana. 

00:16 - Madison McElhaney er grjóthörð. Hún hefur brotið 30 bein í líkamanum í gegnum ævina og farið í níu aðgerðir. Hún er ekki nema 25 ára. Felicia Spencer byrjar hins vegar töluvert betur og setur Madison undir mikla pressu og lætur höggin dynja á henni. 

00:14 - Fyrsti bardagirinn er kominn af stað. 

00:00 - Fyrsti bardagi kvöldsins er á milli Felicia Spencer og Madison McElhaney. Þær eru báðar frá Bandaríkjunum og eiga einn bardaga að baki sem þær unnu. 

23:52 - Mallory Martin er 23 ára og spennandi ung bardagakona, sem á framtíðina fyrir sér. Hún verður hættulegur andstæðingur fyrir Sunnu, en eins og flestir vita er Sunna sjálf gríðarlega hörð af sér og óttast ekki neitt. Sunna er 31 árs og verður hún að vinna svona bardaga eins í kvöld, ætli hún sér að komast á stóra sviðið í UFC einn daginn. 

23:50 - Eins og hefur komið fram, eru sjö bardagar í kvöld. Við fylgjum ykkur í gegnum fyrstu þrjá, en sá þriðji er bardaginn hennar Sunnu. 

23:08 - Sunna og Mallory Martin eiga það sameiginlegt að þetta er bardagi númer tvö á atvinnumannaferli þeirra. Mallory vann öruggan sigur á Heqin Lin í fyrsta bardaga sínum. 

Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Mallory Martin berjast í nótt.
Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Mallory Martin berjast í nótt. Ljósmynd/Sóllilja Baltasarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert