HK og Afturelding mætast í úrslitum

HK-konur fagna í viðureign sinni gegn Stjörnunni í blaki í …
HK-konur fagna í viðureign sinni gegn Stjörnunni í blaki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú er ljóst að það verða Afturelding og HK sem mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki, en bæði lið unnu síðari leiki undanúrslitaeinvígja sinna í kvöld.

HK heimsótti Stjörnuna og rétt eins og í fyrri leiknum fór HK með 3:0-sigur af hólmi. HK vann fyrstu tvær hrinurnar báðar 25:13, og þá þriðju 25:21.

Hjördís Eiríksdóttir og Elísabet Einarsdóttir skoruðu báðar 11 stig fyrir HK, en hjá Stjörnunni var Erla Rán Eiríksdóttir stigahæst með 13 stig.

Þróttur Neskaupstað fékk Aftureldingu í heimsókn og þar voru það gestirnir úr Mosfellsbænum sem fóru með 3:1-sigur af hólmi.

Leikurinn var þó jafn og spennandi, en Afturelding vann fyrstu hrinuna 25:12. Þróttur jafnaði leikinn í næstu með því að vinna 25:23, áður en Afturelding komst yfir á ný með sigri í þriðju hrinu, 25:22. Í þeirri fjórðu voru svo gestirnir sterkari, unnu hana 25:20 og leikinn 3:1.

Kate Yeazel fór fyrir Aftureldingu í leiknum og skoraði 18 stig, en hjá Þrótti skoraði Ana Maria Vidal 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert